Íþróttaálfurinn Óli og bikíní

Ég gerðist duglegur og fór í sund, hjólaði meiraðsegja í sund. Hitti Særúnu á leiðinni (hef ekki hitt hana augliti til auglitis í svona ár líklega) og spjallaði aðeins við hana meðan ég var að reyna að átta mig á hjólinu (líklega eru 18 gírar á því en einsog ég nota það þá eru svona 6).

Ég fór já í sund og synti lengra en síðast, heila 400m. Ég ætlaði reyndar að synda meira en þá byrjuðu skólasundskrakkarnir að týnast oní og ég flúði í pottinn. Rétt á undan mér ofan í pottinn var ungt par og stúlkan var í bikíní sem var ólíkt þeim bikíníum sem ég hef séð vegna þess að á neðri partinum aftaná var einhver ferköntuð hola til að sýna heilmikið af rassskoru. Kannski er holan ekki ætluð til þess að sýna þetta og þá bara mér að kenna að nýta mér það, gæti alveg eins verið að þetta séu algengar holur og þetta komi mér bara á óvart af því ég fer svo sjaldan í sund. Hver veit.