Að rippa plötur er gaman

Ef einhver fattar ekki hvað ég er að tala um í titli færslunnar þá er “að rippa” slangur yfir það að búa til stafræn eintök af tónlist, yfirleitt talað um að rippa geisladiska. Ég er semsagt búinn að vera að rippa fjórar plötur síðustu daga. Tek kannski fram áður en að Maggi Kjartans drepur mig að þetta er allt fullkomlega löglegt, maður má gera aukaeintök af tónlist sem maður hefur keypt og síðan er þetta skrifað á geisladiska sem blóðskattur STEFS hefur verið rukkaður af.

Tók Pílu Pínu og Pétur og Úlfinn upp fyrir Árnýju og fjölskyldu (og mig og Eygló þar sem ég á þessa plötu þó hún sé of illa farinn til að gera afrit af henni). Í gær tók ég síðan og rippaði plötu með Mánum sem mér sýnist heita einfaldlega Mánar. Ég tók líka einhverja alla algengustu plötu Góða Hirðisins yfir á stafrænt form. Hjálpum þeim, hjálpi mér, þetta er fyrir Eygló. Það er ótrúlega auðvelt að rippa plötur með tónlist því Audiograbber skynjar það þegar skipt er um lag, það virkar ekki á þessar umræddu barnaplötur því þegar yfirlestur er í gangi túlkar forritið hverja andpásu hjá sögumanni sem lagaskipti.

Pétur og Úlfurinn er alveg tilbúinn, bara að skrifa á disk. Píla Pína er alveg að verða tilbúin, reyndar gæti ég þannig séð hent henni á disk núna en þarf að pússa smá til. Ég fer síðan að rippa eina kassettu og þar að auki hef ég á stefnunni að taka upp tónlistina úr Hárinu af videospólu en þar syngur Hildur aðalhlutverkið.

Annars eru Mánar í gangi núna, ágætisplata alveg.