Viltu láta velja fyrir þig?

Jæja, hún hjá finna.is er búin að tilkynna að bloggsíðan þeirra verði endurskoðuð, það verði vitnað í færslur í stað þess að taka heilar færslur, það er gott. Ég heyrði ekki á henni að það ætti biðja fólk afsökunnar á þessu, sem er slæmt. Mér fannst hún ekki skilja að þetta var í raun hreint og klárt lögbrot hjá henni, það er kannski farið frjálslega með höfundarréttarlög á netinu en þegar slíkt er gert í gróðaskyni þá er það farið langt yfir línuna (minnir að það sé gerður greinarmunur á þessu í lögunum sjálfum).

En er þetta annars góð hugmynd, að elta uppi skemmtilegar bloggfærslur og vitna síðan í þær? Er það ekki einfaldlega bara einsog Batman fyrir utan að það verður sérhæfðara? Hugsanlega myndi þetta vera leið til að finna blogg en ég myndir aldrei nota slíka síðu einsog ég nota Molana. Maður getur ekki látið einhvern annan sortera svona fyrir sig, þá er maður bara að láta ritskoða netið fyrir sig. Raunverulega krassandi færslur kæmust ekki að, sé ekki fyrir mér að guðlast trúleysingjanna kæmist þarna inn (það kemst hins vegar inn á Batman og ég er þakklátur fyrir það (guðlast er glæpur án fórnarlambs)).

Ef eitthvað svona veffyrirtæki hefði metnað þá myndi það kaupa tæknina á bak við Molana af Bjarna og láta hana upp hjá sér, síðan myndu þeir bjóða fólki að skrá sig (og þá þyrfti að staðfesta slíkt með tölvupósti). Líklega þyrfti að hafa notendavænna viðmót en er núna á Molunum til að fólk væri ekki jafn hrætt við að skrá sig.

Annars er spurning hvort þetta verði til þess að maður láti inn svona höfundarréttarklausu hjá sér og taki fram hvernig megi nota efnið? Ég bjóst eiginlega ekki að það væri þörf á því. Einstaklinga er auðvelt að tala til og fyrirtæki ættu að hafa höfundarréttarlög á hreinu.