Þetta er saga helgarinnar. Myndir frá helginni eru hér, á eftir að láta inn fleiri myndir á Týssíðuna.
Á föstudaginn fór ég á Grand Rokk með Eygló og Hallgrími. Þegar við komum þá var Dark Harvest að spila og þeir voru bara nokkuð góðir. Ég sá Heri gítarleikara/söngvara Týs þarna og heilsaði honum, hann mundi eftir mér (útaf heimasíðunni sem ég bjó til um þá og tölvupóstsamskiptum okkar). Hann kynnti mig fyrir kærustunni/umboðsmanninum, henni Sigrid. Ég fékk þá líka þessa frábæru mynd af okkur saman. Ég náði hins vegar ekki að koma miklu af viti útúr mér þegar ég var að spjalla við hann þá, bara svona:“Nýja platan ykkar er góð, jafnvel betri en sú fyrri“.
Freak Kitchen kom síðan á svið, ég var búinn að redda mér nokkrum lögum með þeim þannig að ég vissi að þeir voru góðir, það var líka hluti áhorfenda sem var að þarna bara til að sjá þá. Matthias söngvari/gítarleikari er alveg eðal showmaður og virkilega góður tónlistarmaður. Það er ekki hver sem er sem spilar á gítar með „gigantic chinese ass dildo“. Björn trommari átti afmæli um kvöldið og nærri því hvert einasta lag var tileinkað honum, Eygló hélt reyndar fyrst að þeir væru sífellt að tileinka Björk lögin því hún átti afmæli um daginn. Það var reyndar hluti áhorfendanna sem var ekki að fíla Freak Kitchen og vildi fá Tý.
Klukkan var líklega orðin 2:20 þegar Týr steig á svið, í millitíðinni hafði hópurinn framan við sviðið alveg gjörbreyst og leðurjakkatöffararnir voru farnir. Það fannst mér fyndið. Týr var að gera það gott en áhorfendurnir hefðu líklega viljað fá Ormin Langa fyrr, þeir spiluðu það sem næst síðasta lag (ef ég man rétt). Man það var einn náungi þarna sem var sífellt að reyna að segja mér eitthvað en ég heyrði aldrei nokkuð í honum. En djöfull hvað þetta var gaman, ég söng mig hásan og hoppaði og dansaði.
Á laugardagskvöldið fórum við með Evu, Heiðu og Emmu vinkonu þeirra frá Svíþjóð (sem hefur líka búið í Færeyjum) til Selfoss, við fundum Hvíta Húsið og það er bara fínn staður og stór. Ég var aftur með frátekna miða því ég vildi ekki keyra alla þessa leið og þurfa að snúa við. Ég fór strax að hitta Heri og þá kynnti hann mig fyrir restinni af hljómsveitinni, tókum nokkrar myndir, meðal annars af Emmu og Evu með Heri (Eva heimtaði það og ég held að hún hafi hrætt Heri enda var hún hávær). Ég spjallaði aðeins við Sigrid um myndirnar sem ég hafði tekið og hvort ég ætti ekki að koma þeim til hennar áður en þau færu. Þá var ákveðið að bjóða mér á tónleikana í Tjarnarbíó sem ég var ákaflega glaður með.
Nilfisk fór á sviðið og voru bara fínir, þeir eiga greinilega sína aðdáendur þarna. Á meðan Nilfisk var að spila þá spjallaði ég aðeins við Sigga Hólm (eins mikið og maður spjallar við einhvern meðan hávær hljómsveit er að spila), kom þá í ljós að hann fór með hljómsveitirnar í túristaleiðangur um nágrenni Reykjavíkur (Gullfoss og Geysir).
Freak Kitchen steig á svið og voru vissulega góðir, í þetta skipti fórum við Eygló og vorum fyrir framan sviðið. Selfyssingar eru skrýtnir, þeir dönsuðu einsog vitleysingar, komu og spjölluðu við mig á fullu (veit ekki af hverju). Það byrjuðu slagsmál í miðju lagi og Matthias tók sig til og stoppaði spilamennskuna, sagði slagsmálahundunum að hann væri ekki að þola svona vitleysu og bað þá um að hætta eða þá að þeim yrði bara hent út. Hann er svalur.
Þegar hitað var upp fyrir Tý var Rammstein spilað og ég fór að dansa við það, ég og Siggi Hólm tókum rispu sem hann tók myndir af, fjör. Týr kom síðan á svið og það var svoltið áberandi hvað Gunnar bassaleikari var í miklu meira stuði en fyrra kvöldið (enda höfðu þeir víst bara komið til landsins klukkan 19:00 á föstudag). Einn í áhorfendahópnum var með eitthvað leikfangalamb sem kom töluvert við sögu. Í einhverju af síðustu lögunum var ég farin að bömpa við einhverja stelpu þarna upp við sviðið (á meðan Eygló var aðeins aftar með vinkonum sínum).
Færðin á leiðinni til baka var ömurleg, sá ekki veginn almennilega í snjónum. Eins gott að ég skipti yfir á vetrardekk fyrr um daginn.
Á sunnudagskvöldið fór ég í Tjarnarbíó, fór frekar snemma. Ég lét þau hafa myndirnar sem ég hafði tekið fyrri kvöldin og spjallaði aðeins við þau. Síðan spjallaði ég aðeins við Matthias úr Freak Kitchen sem vildi að ég sendi honum líka myndir, ég tók mig þá til og ráðskaðist aðeins með hvaða lög þeir, sagði að þeir yrðu að taka Nobodys Laughing (en þeir höfðu sleppt því kvöldið áður). Hann tók þessari gagnrýni bara vel.
Ég laumaði mér baksviðs og hékk þar, fylgdist með hljómsveitunum, sérstaklega því þegar meðlimir Týs voru að hita upp. Tók fullt af myndum. Ég spjallaði síðan töluvert við alla þrjá meðlimi Týs og var kominn uppúr aðdáendafílingnum og orðinn ég sjálfur. Við Heri spjölluðum um Goðheimabækurnar, ég gat sagt honum frá því hvenær bókin um Ragnarök ætti að koma (semsagt að hún yrði númer 14), ég mælti síðan með að hann læsi American Gods eftir Neil Gaiman.
Í bakherberginu með okkur var náungi frá Radio Reykjavík sem hafði tekið viðtal við þá, ég spjallaði aðeins við hann á meðan Týr var að æfa upp raddirnar á salerninu/í stiganum. Þegar Freak Kitchen var svona rúmlega hálfnað þá fattaði Heri að hann hefði gleymt að kaupa batterí í headsettið og ég beðinn um að fara að kaupa tvö stykki. Ég hljóp í 10-11 og hljóp til baka og fann þá að líkaminn var aðeins byrjaður að kvarta yfir dansi og headbangi (aðallega bakið). Þetta reddaðist allt.
Týr fór á svið og ég held að þetta hafi verið bestu tónleikar þeirra. Reyndar er Tjarnarbíó ekki alveg rokkstaður, fullt af unglingum í salnum og fáir þorðu að standa á fætur og hreyfa sig (ég stóð nær allan tímann). Ég hafði ægilega gaman af því þegar Heri mundi ekki hvenær Eric the Red hefði komið út og ég kallaði það til hans og fékk svona „Takk, Óli Gneisti“ fyrir.
Eftir tónleikana keypti ég mér Freak Kitchen bol, fattaði reyndar í kjölfarið að ég hefði gleymt að fá mynd af mér með hljómveitinni en ég redda því bara næst. Síðan tók ég brunaði heim og til baka svo ég gæti látið Tý hafa dáltið sem ég lofaði þeim, vonandi endar það með svona skemmtilegri uppákomu þegar þeir koma næst. Jamm og þeir eru vonandi að koma rétt bráðum aftur.
Sjitt hvað þetta var gaman.