Blogggátt finna.is dauð

Mér datt núna rétt áðan í hug að kíkja hvort blogggátt finna.is væri ennþá í gangi. Síðasta uppfærslan þar var fyrir jól þannig að það er ljóst að hún er dauð. Ég spáði þessu nú á sínum tíma.

Það var ótrúlegt að sjá af hve mikilli vankunnáttu og skilningsleysi var farið í þessa tilraun á sínum tíma. Það var byrjað á því að safna saman miðlægt bloggfærslum í stað þess að vísa bara á þær. Það var ekki athugað hvort bloggararnir væru sáttir við að texti þeirra væri tekinn og því voru höfundarréttarlög þverbrotin. Enginn sem kom að þessu hjá finna.is virtist skilja að bloggarar vilja fá heimsóknir á sínar eigin síður. Síðan var augljóslega enginn skilningur á því að það gengur ekki upp að láta einhvern velja áhugaverðar bloggfærslur, bæði vegna þess að fólk vill geta valið sjálft og vegna þess að það eru bara of margir bloggarar til þess að það sé hægt.

Ef eitthvað veffyrirtæki hefði metnað til að gera bloggi góð skil þá ættu þeir sömu að spjalla við Bjarna um Rssmolana. Það væri með smá vinnu hægt að gera þá notendavænni og þá væri örugglega hægt að búa til miðpunkt sem flestir bloggarar hefðu áhuga á að nýta sér.