Ég fór niður í bæ í gær að kíkja í nokkrar búðir. Ég var í þetta skiptið meðal annars að leita bókinni Blekking og Þekking eftir Níels Dungal sem er stórgott yfirlit yfir það hvernig kristin kirkja hefur barist gegn flestum framförum á sviði vísinda. Ég fór fyrst í einhverja fornbókabúð á Hverfisgötunni og spurði um hana, náunginn sem var að vinna þarna settist þá niður til að fletta upp í Excelskrá. Ég man varla eftir því að hafa séð mann vera svona hægvirkan á tölvu, eins gott að ég gat leikið við hundinn á meðan.
Ég ætlaði næst að fara í Videosafnarann en sú búð var lokuð einsog síðast þegar ég fór þangað. Næst var það Gvendur Dúllari, ég fletti fyrst í hljómplötunum sem voru þar til á 300 krónur og fann þar Greatest Hits með Queen, ég tók hana að sjálfsögðu. Ég spurði síðan afgreiðslumanninn um bókina Blekking og Þekking, hann fletti ekki upp í neinni tölvuskrá heldur gekk bara að hillu og tók hana út. Eintakið er reyndar ekki í fullkomnu ástandi en nógu gott til að lesa það.
Ég fór á nokkra staði í viðbót en lauk ferðinni með því að fara í 2001 til að ná í Lonely Guy og All of Me með Steve Martin sem ég pantaði fyrir nokkru.
Ég á reyndar báðar myndirnar í afskaplega lélegum eintökum. Lonely Guy er hugsanlega verst þýdda mynd sem ég hef séð (semsagt á video), þar er „Musician“ staðfastlega þýtt sem „Spilari“. Glæsilegt alveg.