Dagurinn í dag. Við Eygló byrjuðum á því að fara niður í bæ (reyndar fórum við fyrst á fætur og borðuðum en það er jafn óáhugaverðara en sagan sem fylgir þannig að ég hefði átt að sleppa þessu kommenti) á fyrirlestur í tilefni 50 ára afmælis Borgarskjalasafns. Þessi fyrirlestur hét „Skjölin lifna við“ sem mér finnst reyndar efnilegur titill á hryllingsmynd.
Við lentum í veseni þar sem við vissum ekki hvar fundarstaðurinn var, við vorum hins vegar svo heppin að borgarstjóri gekk framhjá. Við ályktuðum að hann væri að fara í sama partí og við þannig að við eltum hann, þetta plan virtist hafa misheppnast þegar við sáum kallinn horfa vandræðalega í allar áttir. Á meðan Þórólfur var að skoða umhverfið heilsaði Sigrún vinkona Hafdísar okkur, hún stóð einmitt beint fyrir framan mig. Þórólfur fann loksins rétta leið þannig að við kvöddum og eltum hann.
Þegar við komum þarna hittum við Stefán Pálsson. Ég skammaði hann fyrir tvennt, í fyrsta lagi fyrir það að stunda skemmdarverkastarfsemi á „léttu og skemmtilegu“ föstudagskastljósi með því að tala um raunveruleikann og síðan benti ég honum á að þriggjamyndaspurningin hefði verið of létt í síðasta Gettu Betur. Við sættumst reyndar á að það hefði verið hægt að redda þessari spurningu með betri uppröðun á myndunum (brjóstsykurinn fyrst).
Gettu Betur dómarar voru reyndar þarna í hópum og ég náði mynd af, reyndar hef ég ekki skoðað hve góð þessi mynd er. Ég hleraði þarna mjög áhugaverðar reynslusögur um erfiða yfirmenn sem dómararnir hafa þurft að þola.
Eftir að ég var sestur þá benti Eygló mér á að við þekktum fundarstjórann vegna heimsókna hennar á dagbækur okkar. Hæ Jóhanna. Jóhanna fékk að vinna fyrir fundarstjóratitlinum þegar á leið.
Fyrirlestararnir voru yfirleitt skemmtilegir, meðal annars komust við að því að maður þarf að vera ákveðinn Indiana Jones týpa til að vinna á Borgarskjalasafninu.
Stebbi flutti skemmtilegasta fyrirlesturinn um Gasstöðina sem þróaðist síðan í sögur af svallveislu sem ég hafði ekki heyrt áður, mjög fræðandi.
Fyrirspurnirnar voru skrautlegar, fyrstur til að koma með undarlega fyrirspurn var ákveðinn ættfræðingur sem fékk ávallt eftirnafnið „heimski“ þegar annar ættfræðingur sem ég þekki talaði um hann. Fyrirspurn hans var í fyrsta lagi athugasemd um annan fyrirlestur og í öðru lagi var fyrirspurn um álit Þórs Whitehead á ættfræði. Hvernig maðurinn tengdi Þór við ættfræði veit ég ekki. Pétur Pétursson þulur var alveg frábær í sínum „fyrirspurnum“ þar sem hann þuldi upp sögur af fólki sem á einhver fjarlægan hátt tengdust efni fyrirlestranna. Margar áhugaverðar sögur en fundarstjórinn þurfti að stoppa kallinn svo fundurinn yrði ekki heillangur.
Á leiðinni heim hitti ég fyrrverandi vinnufélaga, ég var reyndar smástund að rifja upp nafn hans en ég man vel eftir honum af því hann var ægilega skemmtilegur, einn af þeim (okkur) sem var með mestu hommalætin þarna 😉