Spilakassaleikir

Ég er á því að tölvuleikir hafi hægt og rólega orðið leiðinlegri og leiðinlegri, þeir verða flóknari og flottari í leiðinni en skemmtanagildið minnkar. Ég vill að hægt sé að læra grunnatriði tölvuleikja á svona 2-3 mínútum, það á ekki þurfa að nota nema svona í hæsta lagi 6 takka á lyklaborðinu (örvatakkana, bilslánna og kannski Enter ef þetta er verulega flókið).

Ég fann síðu með gömlum spilakassaleikjum eftir ábendingu frá Kaninku-Palla. Þessir leikir eru klassískir, stórskemmtilegir og einfaldir. Ég hafði gaman af þeim þegar ég var fimm ára og ég hef ennþá gaman af mörgum þeirra.

Á þessari síðu er meðal annars leikurinn Space Invaders sem var í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Ég man að ég perlaði mynd úr þessum leik þegar ég var lítill, myndin var raunsærri en fólk myndi halda þar sem upplausnin í spilakassaleikjum þessa tíma var svipuð og hægt var að ná fram með perlum. Ef einhver veit ekki hvað ég á við með perlunum þá skal ég útskýra það seinna.

Asteroids er í uppáhaldi hjá mér núna, ég er nokkuð góður og ef ég sleppi því að læra næstu vikuna þá er ég öruggur um að komast á topp200. Ég man ekki hvort Asteroids var til í Spilasalnum, Hafdís systir þyrfti að segja mér það. Ég veit hins vegar að ég spilaði hann einhvers staðar og ég spilaði hann líka þegar hann kom út fyrir svona 6 árum í nýrri útgáfu (blessunarlega lítið breyttur).

Það þarf ekki að kynna neinn fyrir Frogger, Pac-Man né Donkey Kong. Þessir leikir voru víðfrægir, goðsagnakenndir en ég játa að ég er ekki að nenna að spila þá núna, kannski þegar ég fæ leið á Asteroids.

Það ættu allir spilakassaleikirnir (líka allir Amstrad og Commadore leikir) að vera aðgengilegir á svona einföldu formi, það vantar til dæmis Tarzan og skíðaleikinn. Við Hafdís þurftum alltaf að laumast í Tarzan.

Ég má ekki einu sinni laumast í Asteroids núna, Eygló finnst ég vera of hávær þegar ég lem bilslánna í sífellu, ég ætla því að fara í sturtu og síðan að sofa einsog hún var að benda mér á.