Rölt með tónlist

Ég var í Bónus í morgun og sá þar mp3-geislaspilara á 5000 kall, ég hugsaði mig um í smá stund og ákvað að stökkva á hann, Eygló var ákaflega efins eitthvað. Planið er að nota hann til að hvetja mig til að fara út að ganga, síðan verður gott að hafa hann ef ég get rölt í vinnuna í sumar.

Hvatningin virkaði því ég fór út að rölta áðan í rúmlega klukkutíma, hlustandi á Queen, *I love you for your mind, baby give me your body*. Ég söng náttúrulega með. Hristivörnin var kannski ekki einsog best var á kosið en samt ekki þannig að það angraði mig sérstaklega.

Það fylgdi spennubreytir með spilaranum þannig að maður þarf ekki að eyða batteríum ef maður tengir hann við hátalara heima við, hann verður væntanlega töluvert notaður til slíks brúks. Það fylgdi líka fjarstýring með.

En spilarinn er líka, eða jafnvel fyrst og fremst, VCD spilari. Ég á reyndar eiginlega engann VCD-disk þannig að ég hef ekki prufað þetta en það verður áhugavert að sjá hvernig það virkar.

Allt í allt voru þetta fín kaup og spilarinn á væntanlega eftir að duga þar til almennilegir mp3-spilarar verða komnir á sómasamlegt verð.