Xtreme Golf

Einsog allir vita er golf leiðinleg íþrótt ef íþrótt skyldi kalla, í raun er þetta ákaflega leiðinleg útfærsla á grunnhugmynd sem er alls ekki slæm. Á föstudagskvöldið kom ég fram með lausn á málinu fyrir framan einn helsta golfara landsins (sem virtist ekkert sérlega hrifinn en hvað um það).

Leiðir til að gera golf að skemmtilegri íþrótt:
* Láta alla byrja um leið með eina kylfu, það eina sem takmarkar í raun fjölda þeirra sem geta lagt af stað í einu er fjöldi lita sem hægt er að hafa á golfkúlum.

* Höggfjöldi á ekki að skipta neinu máli en þess í stað er það hraðinn sem gildir.

* Leyfa keppendum að skjóta kúlum andstæðinga sinna út í móa, sand- eða vatnsgryfjur þegar þeir fá tækifæri til.

* Hafa fleiri hindranir á vellinum.

* Það mætti stugga við andstæðingunum, væntanlega væri bannað að nota kylfuna í það en það væri í lagi að nota líkaman aðeins.

Sjáið fyrir ykkur muninn, golfararnir raða sér upp við byrjunarpunktinn, gera sig tilbúna og bíða eftir að dómarinn hleypi af skoti. Þegar skotið heyrist þá skjóta allir kúlunni sinni og hlaupa af stað, strax má búast við smá árekstrum, mönnum yrði hrynt ofan í vatnsgryfjur og svo framvegis.

Þegar að kemur að lokapúttinu þá væri ekki bara einn náungi í rólegheitum að miða heldur kannski 3-4 sem allir væru að reyna að hitta ofan í, kúlurnar myndu lenda í áresktrum og keppendurnir væntanlega líka. Sá sem nær fyrstur að koma kúlunni ofan í vinnur, kannski væri þetta útsláttarkeppni þannig að hann myndi halda áfram í næstu umferð á meðan hinir væru bara úr leik.

Annar kostur við þessa lausn er að allt þetta plássvandamál sem golfarar eru að glíma við myndi hverfa, það þyrfti enginn að fara átján holur til að fá líkamsþjálfun, þú værir búinn að vera eftir eina eða tvær holur.