Listakynningin hjá H-listanum í gær

Þá er kosningabarátta Háskólalistans að fara af stað í alvöru. Í gær var listakynningin og einsog þið sem voruð þarna í gær vitið þá hef ég tekið að mér þriðja sætið. Ég hef svo sem verið að gefa þetta í skyn undanfarið og mín kosningabarátta er í raun hafin.

Eftir kynninguna þá fórum við af stað í sumarbústað, gamla og nýja liðið saman. Elías formannsefni var maðurinn með kortið og vísaði okkur hinum leiðina. Því miður er hann ekki jafn góður í kortalestri og í hagsmunabaráttu stúdenta því hann lét okkur hafa kolvitlausar leiðbeiningar til að byrja með. Þar sem Elías var með lyklana ákvað hann að fara styttri leið til að vera á undan okkur.

Þegar bílar okkar Freys voru komnir að læstu hliði sumarbústaðahverfisins var Elías hvergi að sjá og greinilegt að styttri leiðin hafði verið eitthvað gruggug. Við Freyr ákváðum að láta hliðið ekki stoppa okkur. Við lyftum því einfaldlega af hjörunum og gengum síðan aftur frá því þegar bílarnir voru komnir í gegn. Elías varð vægast sagt hissa þegar hann kom að hliðinu við vorum hvergi sjáanleg.

Númerakerfið í þessu sumarbústaða kerfi var afar grunsamlegt, við villtumst um í töluverðan tíma og fundum loksins bústað 16 við hlið bústaðs númer 25. Þarna biðum við í töluverðan tíma eftir hinum bílunum og þegar við sáum þá koma lét ég hazardljósin á til að félagar okkar þyrftu ekki að villast um einsog við. Reyndar var svo glerhált þarna að bílarnir tveir lentu næstum í árekstri, frá sjónarhorni okkar sem við bústaðinn vorum leit þetta út einsog þeir myndu lenda harkalega.

Þegar komið var inn tóku við almenn skrílslæti. Eftir að fólk hafði komið sér fyrir þá ákváðum við að keppa í Trivial Pursuit, gömlu gegn hinum ungu og fersku. Spilið byrjaði illa fyrir okkur unga fólkið en þegar skipt var um spurningabunka þá snerist gæfan við. Reyndar var einn úr okkar röðum sem gaf hinum ítrekað svör (enda svoltið kenndur, honum verður ekki hleypt nálægt Vösku Röku). Við náðum að vinna upp muninn en á lokasprettinum hrifsaði gamla fólkið sigurinn úr greipum okkar. „Hvað er eina fleyga spendýrið?“ – Það ætti að vera bannað að vinna með svona spurningum.

En síðan tók vitleysan aftur við, órólega deildin fór út í pott en við hin ræddum alvöru lífsins inni við (þrátt fyrir tilraunir okkar Jakobs að snúa umræðunni á aðrar brautir). Við ræddum líka um nauðsyn þess að ná myndir af holdi til að veiða atkvæði með en vilji pottbúa til að sýna sig var ekki mikill.

Ég ákvað að koma mér heim einhvern tíman um hálffjögur. Heimferðin gekk ekki slysalaust, hliðið var meiri fyrirhöfn þegar ég hafði ekki Frey með mér og þegar ég var að flýta mér inn í bílinn rann ég allharklega en þó ekki alvarlega á bakið.

Þið sem bíðið eftir að listinn komi á netið verðið að vera róleg þar sem vefstjórinn okkar er líklega ennþá sauðdrukkinn út í móa, ég hins vegar er hress og kátur í vinnunni.