Það er verulega fyndin frétt á Mogganum um skiptafund SHÍ. Þar stendur í fyrirsögn að formaður Háskólalistans hafi verið kosinn formaður SHÍ, þar stendur líka að hann Elías Jón sé oddviti Háskólalistans. Þetta finnst mér bráðskemmtilegt enda er hvorugt rétt. Elli er ekki formaður okkar enda höfum við engan formann og hann er ekki heldur oddviti okkar heldur er Arndís Anna oddviti H-listans.
En ég get ekki verið fúll yfir niðurstöðunni af því að ég held að við höfum náð því fram að skipting á milli fylkinga verði eins jöfn og hægt er. Ljóst er að hvorki Vaka né Röskva vildi fá formann úr röðum „andstæðingana“ og Elías er því að vissu leyti málamiðlunartillaga sem allir geta sætt sig við. Þetta er alveg ljóst þó að Röskva og Vaka hafi sett upp leikþætti. Elías er líka rétti maðurinn til að ná því besta fram úr Vöku og Röskvu. Að mínu hógværa mati þá er hann einfaldlega besti maðurinn í starfið. Ég hef sjálfur séð hvernig hann vinnur og veit hvað hann getur.
Einsog ég segi þá er nú komið að því að vinna að hagsmunum stúdenta, allar fylkingar hafa rödd og áhrif. Enginn er settur út í kuldann. Þau okkar sem nenntu að lesa um stefnu fylkingana vitum líka að það er almenn sátt um málefnin. En þetta verður spennandi.
PS
Mogginn er búinn að breyta fyrirsögninni þannig að Elli er titlaður oddviti en ekki formaður, þetta er alveg jafn vitlaust en Mogginn getur kennt Vöku um þessi mistök. Ég sendi leiðréttingu á þá áðan og þeir hafa greinilega ákveðið að hlusta á helminginn af því sem ég sagði.