Það er ekki laust við að manni hlakki til að fara á Duran Duran. Í gær var viðtal við Tóta í Kvöldþættinum þar sem hann talaði um ást sína á hljómsveitinni. Tóti virðist hrifnastur af Union of the Snake en ég verð að segja að Rio er í mun meira uppáhaldi hjá mér. Í raun þá er það tvennan Save a Prayer og The Chauffeur sem gera útslagið með það. Save a Prayer var uppáhalds Duranlagið mitt lengi en The Chauffeur tók síðan við.
The Chauffeur er fullkomið dæmi um það þegar hægt er að mála mynd, textinn er ekki beint saga heldur lýsing á aðstæðum. Það minnir mig líka nær alltaf á fyrsta kvöldið sem við Eygló eyddum saman.
Is there something I should know hefur líka alltaf verið í uppáhaldi hjá mér en því miður lítur það þannig út að Duran taki það ekki á tónleikunum. Ég hefði viljað kyrja „Please please tell me now!“.
Ég man þegar remix af Save a Prayer var vinsælt á fyrri hluta tíunda áratugarins, þoldi það alls ekki en líklega átti það sinn þátt í að ég byrjaði að kaupa Durandiskana. Ég á reyndar ekki heildarsafn Duran, vantar Pop Trash, Medezzaland (veit ekki einu sinni hvernig það er skrifað) og Thank you (ofurflopp coverplatan þeirra).
Ég man að ég tók, mjög ungur, afstöðu með Duran í Wham! vs Duran Duran deilunni allri. Man eftir að hafa verið að krassa Duran Duran á einhverja miðja í Klettavíkinni á sínum tíma. Þessi deila er svosem ekki áhugaverð lengur. Sjálfur er ég alltaf nokkuð hrifinn af Wham!, á einn disk með þeim og síðan allavega einn með George Michael. Anna systir á síðan örugglega Son of Adam eða hvað hún hét aftur sólóplatan hans Andrew Ridgeley.
Það er svoltið magnað að vera á leiðinni á Durantónleika, hlakka til. Duran er náttúrulega hljómsveit níunda áratugarins, engin er þarna nálægt (Queen telst ekki með þó þeir hafi starfað á þessum árum, þeir eru áttunda áratugar band).
Sjálfur hefði ég ekki valið Leaves sem upphitunarband en þeir eru alveg þolanlegir.
En hvernig kemst maður að því hvernig veitingar verða seldar þarna? Ég nenni ekki að kaupa mér fokdýrt rusl einsog var á Plant-tónleikunum. Pínulitlir flögupokar á 250 krónur og síðan lítil kók dós á sama verði.
Auðveld spurning að lokum, úr hvaða lagi er titill færslunnar?