Pizza, Yule og MA-nám

Svo ég tali um jákvæða og skemmtilega hluti þá fór ég áðan út í Háskóla. Byrjaði að fá pizzur frá Ella (eða öllu heldur FS). Sigrún leit við og fékk sér uppáhaldspizzuna sína. Því miður náði ég ekki að plata Sigrúnu með mér út í Þjóðminjasafn þar sem ég fór að hlusta á Terry að tala um hin íslensku jól fyrir útlendinga. Terry hélt því fram að þetta væri ekkert áhugavert fyrir Íslendinga en það er hógværð hans. Alltaf gaman að fá fyrirlestur frá Terry. Held að hann verði aftur með sama efni eftir viku. Mæli með því. Ég hitti líka Hope þarna (við trúleysingjarnir sem hötum jólin eins og þið vitið).

En Yule-böddíinn minn endaði á næsta bekk fyrir aftan mig því hún kom með seinna fallinu. Semsagt Unnur. Við fórum eftir fyrirlesturinn að spjalla við Terry um hvort að við gætum tekið námskeiðið Menningararf á MA-stigi og það á ekki að vera neitt mál. Sem þýðir jibbýjey að ég byrja í raun á mastersnáminu í janúar (þó bara lítið þriggja eininga námskeið).

Við Unnur spjölluðum síðan aðeins saman á kaffihúsinu þarna. Langlengsta samtal okkar þó við höfum væntanlega lesið um daglegt líf hvors annars í nokkur ár. Mjög skrýtið og gaman.

Skrapp síðan til Ella á skrifstofunni og hitti þar Ásgeir líka. Borðaði meiri pizzu. Er núna að fara í vinnuna, síðasta vakt fyrir jól (og áramót).