Kjördeildir eru að fara að loka þegar ég skrifa þessi orð. Mikið er þessi stúdentapólitík undarleg. Maður er að heyra sögur af því að eitthvað skrýtið sé á seyði en ég veit ekki hvað það ætti að vera. Ég er upp í Breiðholti í góðri fjarlægð en það eru einhverjir frá okkur að fylgjast með til öryggis.
Sumir lesendur mínir vita að í fyrradag tók Annas sem var í öðru sæti Háskólalistans í fyrra af skarið og lýsti því yfir að hann vildi ekki vera með lengur. Það var ágætt að hann sagði það en þetta hafði legið í loftinu lengi, hann hefur ekkert verið með í starfinu undanfarið. Var ekki alveg sammála öllu sem hann sagði en ég nenni ekki að rífast um það, við erum bara ósammála. Ég veit reyndar að aðrir eru eitthvað sárir við hann en ég vona að það gangi yfir. Í þessu máli erum við fórnarlömb þessa vonda tveggja ára kerfis. Það er meingallað.
En ef Annas er ekki lengur í myndinni er ég, óformlega þó, í öðru sætinu. Það er skrýtin staða því við lítum á það sem baráttusætið. Ég hef enga hugmynd um hvaða möguleika við höfum á að ná inn tveimur (lesist fjórum) mönnum. Ég veit ekkert hvernig kosningarnar fara. Ég verð bara á Stúdentakjallaranum í nótt og sé hvernig fer. Ég vona hins vegar að sjá sem flesta þar af vinum, kunningjum og öðrum velunnurum Háskólalistans. Við stefnum síðan á að halda eftirpartíið heima hjá Annasi enda er það hefð.
Sigur eða tap? Ég verð sáttur ef við verðum í cirka 15% en ef við förum yfir 18% þá myndi ég segja að við gætum verið mjög ánægð.
Næsta ár verður hins vegar spennandi. Við erum að vinna í alveg ótrúlega skemmtilegri hugmynd sem við gátum eiginlega teflt fram núna þar sem hún er ekki komin nógu langt á veg.
Ég er ánægður með hópinn sem hefur unnið með mér. Við hefðum getað verið klókari í baráttunni en maður fer ósjálfrátt í vörn þegar ráðist er að manni. Sókn hefði verið betri.
En fólkið hefur talað og það kemur í ljós í nótt hvort mér líkar það sem sagt var.