Í hádeginu hringdi Fjölnir í mig og spurði hvort að ég gæti komist á fund klukkan fimm. Ég sagði að ég ætlaði frekar að hitta forsetann. Fjölnir blótaði mér og sagði mér að ég væri sá þriðji sem hann talaði við sem væri á leið á Bessastaði. Þjóðfræðin og fornleifafræðin fóru semsagt á Bessastaði.
Ég ákvað að fá far með Rósu því ég mundi ekki hvar maður beygir inn á Bessastaði. Það var reyndar heppilegt að ég fór með því Rósa rataði ekki að Hamraborg þar sem hún þurfti að pikka upp Sigrúnu, ég rata þangað enda bjó ég þar í um mánuð. Sigrún sagðist verða fyrir framan bókasafnið og hún stóð við það, hún var nefnilega akkúrat að stíga út úr bíl þegar við komum þarna. Og hún rataði á Bessastaði sem var heppilegt.
Ólafur var með allt aðra ræðu en síðast, skemmtilegri eiginlega núna því hann talaði meira um sögu Bessastaða. Við ráfuðum síðan um svæðið. Við Sigrún tókum eina skák á taflborði sem hrókurinn hafði gefið forsetanum. Hún vann mig! Rematch!
Þegar partíið var að deyja á Bessastöðum þá fór ég að spyrja fólk hvort það væri ekki vilji fyrir því að fara eitthvað á kaffihús eða annað. Lítill vilji var hjá fólki nema Sigrún og Jóhanna voru til í það. Síðan bættust reyndar nokkrar moldvörpur í hópinn, þar á meðal Berglind. Við fórum á Stúdentakjallarann og borðuðum þar. Hitti þar að vanda stúdentapólitíkusa. Maturinn var góður að vanda. Þegar ég var að borga bað ég Fabri um prósentur fyrir að draga allt þetta fólk á staðinn en hann gerði þá tilraun til að slá mig utan undir… kannski ekki alvarlega tilraun reyndar.
Ég skutlaði síðan Sigrúnu heim þó hún hafi neitað að koma við á Bókhlöðunni að taka aðra skák.