Verð að skrifa fleira um daginn meðan allt er ferskt en þó í rósrauðum ljóma. Í kaffihléum og fyrir og eftir fyrirlestra var ég meira og minna á borði að selja og sýna dótið okkar. Ráðstefnan var opnuð af fjórum aðilum, Hope, Bobbie forseta AAI (sem ég talaði mikið við í gær á leiðinni heim úr Bláa Lóninu – hún vildi fá mig til að skrifa í Secular Nation) og síðan talaði August sem er verðandi forseti. Jón Baldvin var með einstaklega góða innkomu, ræðan hans var mjög flott og ég veit að Dawkins þótti hún mjög góð. Dawkins var frábær, það verður æðislegt að fá nýju bókina hans. Siggi var með gott yfirlit á íslenska ástandið og mér fannst panelið ganga vel hjá okkur. Það var hins vegar alveg absúrd að lenda í því að Richard Dawkins sé að horfa á mann tala og spyrji mann að einhverju. Ég var líka stoltur af hómópatabrandaranum mínum sem kom Dawkins, og fleirum, til að hlæja.
Sænska stelpan sem ég talaði um í gær þorði að spyrja Dawkins að spurningu eftir fyrirlestur hans. Hún lenti líka í því í hádegishléinu að hún settist bara við eitthvað borð og þá kemur Dawkins og sest við hlið hennar (bara valdi borð af handahófi og spjallaði við þá sem voru þar). Þetta er stelpa sem fór í líffræði undir áhrifum Dawkins, hún fékk martraðir um að gera sig að fífli fyrir framan hann. En það gekk mjög vel hjá henni og hún var svífandi um eftir á. Darri fékk líka að sitja á þessu góða borði.
Verð að játa að ég missti af pörtum af ræðu Margret Downey þar sem ég var í smá reddingum en bæði Biggi og Matti urðu hálfklökkir, þessir hörðu náungar. Hún er líka verulega indæl, Tom maðurinn hennar líka.
Dan Barker er frábær ræðumaður og hefur örugglega verið snilldar predikari. Það var æðislegt samt að fylgjast með Dawkins meðan Barker var að tala. Prófessorinn virðulegi hló og hló. Barker og Dawkins hittust núna í fyrsta skipti á Íslandi, höfðu aldrei lent saman á ráðstefnu. Það er æðislegt. Verð að bæta við að miðað við kynni mín af Dawkins núna þá er hann einfaldlega ljúfur sem lamb, alveg laus við nokkurn hroka, talar við alla, vill allt fyrir fólk gera og er svoltið í ósamræmi við þessa ímynd sem maður hefur kannski af honum. Þetta er einhver frægasti vísindamaður heims en hann er líka bara indæll náungi. Það er langt síðan að feministinn í mér hefur verið vakinn jafn vel og þegar Annie Laurie talaði. Hún fór yfir feril sinn og þessa ógnvænlegu þróun í Bandaríkjunum. Maður áttaði sig ekki hve harkalega er vegið að kvenréttindum þar.
Við fórum einsog fyrr segir á Austurvöll og síðan borðuðum við Vantrúarseggir á La Primavera sem var mjög fínt.
Julia Sweeney með leikþáttinn sinn, það var frábært. Saga hennar er svo hjartnæm og hún segir frá á svo skemmtilegan hátt. Stundum þá hugsar maður hvers vegna við höfum ekki fleiri konur sem eru opinskáir trúleysingjar og ástæðan er kannski sú að þær hafa ekki heyrt í Juliu.
Eftir sýninguna fórum við aðeins út á Rósenberg með eBay trúleysingjanum og hinum háskólastúdentinum sem er með honum. Spjölluðum dáltið. Og ég hitti líka Særúnu.
Skutlaðist heim og er loksins að ná að fara að sofa núna. Góða nótt. Lífið er gott.