Það er erfitt að fylgja eftir degi þar sem Dawkins og Barker komu fram en það gekk ágætlega. Stefán Pálsson var góður, hann tók fyrir bæði jákvæðu og neikvæðu hliðar Dungals. Mjög fyndinn og vakti sal af fólki sem var margt fram á nótt að spjalla við hvert annað. Dawkins áritaði bækur sínar í morgun áður en hann þurfti að þjóta í viðtal og síðan flug. Ég spjallaði aðeins við hann og leyfði mér að vera svoltill fan, sagði honum að hann hefði haft áhrif á mig áður en ég þekkti nafn hans í gegnum tilvísanir Douglas Adams í Hitchhiker. The Brights voru fyrir hádegi og þau sögðu ýmislegt áhugavert en ég fatta ekki af hverju þau kalla sig ekki bara húmanista. Hádegið var líka gott, við úr Vantrú sátum með Hemant (the eBay atheist, við ætlum í samstarf við hann í Skeptíkus) og Bri.
Eftir hádegi var Brannon Braga að tala um Star Trek og maðurinn var taugahrúga. Hann þorði varla að koma sér af stað en hann gerði það og hann var frábær. Ég held að það séu margir þarna sem eiga aldrei eftir að horfa Star Trek sömu augum aftur. Indæll maður. Ég gaf Vúlkan kveðjuna þegar hann steig í pontu og þegar hann kláraði.
Hemant talaði um sína reynslu þegar hann seldi sjálfan sig í að fara í kirkjur á eBay. Ég var ekki alltaf sammála honum en hann hafði nokkrar góðar hugmyndir sem ég fékk leyfi til að stela.
Síðan kom Grand panel með flestum fyrirlesurunum, ég játa að ég var svo útbrunninn að ég náði ekki öllu þaðan. Ég verð bara að horfa á upptökuna. Deginum lauk á því að Dan Barker var með tónleika. Stórskemmtileg lög.
Rétt áður en að Dawkins þurfti að fara datt mér í hug að fá hann og aðra fyrirlesara til að árita tvo Vantrúarboli. Við buðum annan þeirra upp og fengum 5600 sem við gáfum í lögfræðikostnaðarsjóð Siðmenntar. Við ætlum að bjóða hinn upp á eBay við tækifæri (Vantrú fær þá peninga). Bolur með áritunum Brannon Braga, Juliu Sweeney, Dan Barker og Richard Dawkins ætti að geta halað inn dáltið af peningum. Matti reyndi að ná bolinum sem var verið að bjóða upp áðan sjálfur en verðandi forseti Atheist Alliance International vann hann.
Eftir að allt var búið fórum við seggirnir niður á Austurvöll með Hemant og Bri þar sem var farið í hakkísakk og breinstormað.
Indæl ráðstefna, indælt fólk sem var mjög glatt með allt.