Steiktur draumur maður

Smásaga í morgunsárið

„Finnst þér konan mín ekki falleg?“ spyr ókunnugur maður mig uppúr þurru. „Örugglega“ svara ég, „en þó veit ég minnst um það þar sem ég hef aldrei séð hana“. „Hvað ertu að tala um? Hún stendur hérna beint fyrir framan þig!“ segir sá ókunnugi ætlar greinilega að fara að æsa sig.

Ég lít í kringum mig og hugsa með sjálfum mér hvort að ég sé orðinn nógu frægur til að koma fram í þættinum Tekinn!, er Auddi hérna? „Ehh, ég sé enga konu“.  „Ekki láta svona maður,“ hreytir ókunninginn út úr sér „þó þú öfundir mig augljóslega að eiga svona frábæra, fallega og kynæsandi konu“.

„Þú ert að grínast er það ekki?“ spyr ég vantrúaður á einlægni ókunnuga mannsins. „Ég skal meira að segja leyfa þér að sofa hjá henni ef þú játar að þér þyki hún falleg“ segir þá maðurinn drjúgur með sig.

Ég horfi á hann og segi honum að ég eigi nú konu fyrir. Ég bæti við að þó svo væri ekki þá þætti mér það afar óspennandi hugmynd að sofa hjá ímyndaðri konu hans. „Þú ert þá bara náttúrulaus aumingi!“ hrópar ókunnugi maðurinn „það getur ekki verið önnur ástæða fyrir því að þú viljir ekki sofa hjá þessarri ógnarfallegu og yndislegu konu“.

„Ég sé enga konu, hvernig á ég að geta metið fegurð hennar ef ég get ekki einu sinni séð að hún sé til?“ spyr ég orðinn töluvert gáttaður á manninum. „Ást þarfnast engra sannana“ segir maðurinn og glottir.

Ég lít í útvíkkuð sjáöldur ókunnuga mannsins og sé að það er lítið gagn í að rífast við hann. Ég rölti því burt en horfi um öxl og sé þann ókunnuga vera að spjalla út í loftið. Ég heyri hann endurtaka orðið náttúrulaus í sífellu. Ég hristi höfuðið og segi við sjálfan mig að hann hafi væntanlega gleymt að taka lyfin sín. Það væri nú gott ef einhver gæti hjálpað grey manninum.