Ég eyddi gærdeginum í fyrirlestra á Þjóðarspeglinum. Fyrst á þjóðfræðihlutanum. Terry var með busavígslufyrirlestur sem var augljóslega skemmtilegur, Valdimar var með þyngri fyrirlestur um sameiginlega arfleið mannkyns, Aðalheiður talaði um yfirnáttúruleg minni í fornaldarsögum og ég var reyndar voðalega glaður með hennar sjónarhorn á þau, Gísli talaði um hvaða upplýsingar er að finna í Íslendingasögum um Bretlandseyjar sem mér þótti nokkuð skemmtilegt og síðan talaði Anna Þorbjörg um íslenskar minjar á danska þjóðminjasafninu. Síðasti fyrirlesturinn minnti mig dáltið á skrif mín um vopnfirsku húsin á Árbæjarsafni.
Eftir fyrirlestranna þá spjallaði ég aðeins við Gísla sem ég hef aldrei áður gert. Við höfum bara verið í tölvupóstsamskiptum varðandi kúrsinn sem ég er í hjá honum. Það var gott að spjalla við hann augliti til auglitis.
Síðan fór ég á bókasafns- og upplýsingafræðihlutann. Reyndar var það þannig að maður kannaðist vel við innihaldið hjá þremur af fimm fyrirlesurum úr kennslu (Jóhönnu og Ágústu) og af landsfundinum fyrir tveimur árum. Stefanía var með ágætt erindi um þróun safnkosts en hápunkturinn var síðan Áslaug með erindi sitt um Tvíhöfða risann, sameiningu Landsbókasafns og Háskólabókasafns. Vissulega er ég sem fyrrverandi starfsmaður nokkuð hlutdrægur þarna en mér þótti það erindi langáhugaverðast. Í raun hefðu kennarar Háskólans átt að hópast þarna til að hlusta á hana. Það er mjög nauðsynlegt að þessi umræða fari fram því núna held ég að þetta sé fyrst og fremst þannig að fólk sé að kvarta í horni. Það er semsagt þannig að margir fastir kennarar eiga erfitt með að taka Bókhlöðuna í sátt. Því þarf að breyta.
Danni var á ráðstefnunni og var orðinn persónuleikalaus. Stóru gleraugun hans með þykku umgjörðunum voru horfin. Hann er búinn að fara í leiseraðgerð. Ég sagði honum að hann væri persónuleikalaus orðinn. Það er reyndar vitleysa en það lýsir svoltið þeirri umbreytingu sem hefur orðið. Hann talaði um að hann þyrfti kannski að láta sér vaxa skegg í staðinn.