Jæja, kvöldið var indælt. Við byrjuðum á vísindaferð á Árbæjarsafn. Það var gaman. Safnvörðurinn hafði undirbúið sig sérstaklega og var tilbúinn að rökræða um það hvort að vopnfirsku húsin ættu að fara heim. Ég nennti þeim rökræðum reyndar ekki. Þegar á leið ferðina þá kom óvænt í ljós að við Eggert, Sigrún Ísleifs, Jón Kr. og Silli safnvörður vorum orðin ein í Kornhúsinu, á Diskó/Pönk sýningunni, hin höfðu farið öll á Pravda. Við vorum greinilega ein um að finnast það ekki skemmtileg hugmynd.
Við fórum og borðuðum á Grillhúsinu og ákváðum síðan að fara heim til mín að spila. Ég fékk reyndar fyrst 10 mínútna forskot til að taka til. Við spiluðum Gettu Betur og það virtist fyrst ætla að enda með öruggum sigri mínum. Á lokasprettinum náðu hins vegar Eggert og Jón Kr. að ná mér og við enduðum þrír saman á næstsíðasta reitinum. Jón Kr. var sá sem náði að negla þetta og vann spilið. Næst tókum við Trivial í liðakeppni og þar sigruðum við Jón.
Ég skutlaði síðan Jóni og Sigrúnu heim. Ég held að ég sé núna að fara í bólið.