Ég á víst möguleika á allt að 40 milljónum bandaríkjadala. Einn bíður 15, annar 11, einn 9 og síðan er einn með tæpar 5. Þessi síðastnefndi hefur væntanlega ekki viljað láta þetta hljóma ótrúverðugt og hefur þar af leiðandi ekki viljað hafa töluna of háa. Einn af þessum aðilum kom með þær fréttir að ég hafi átt ættingja í Afríku sem því miður létust allir á einhvern ótilgreindan hátt. Það hefði verið gaman að fá að kynnast þessum ættingjum þó ég átti mig ekki alveg í hvaða legg þau voru. Ég veit að á sínum tíma þá ferðaðist Njáll ömmubróðir minn til Afríku, hugsanlega er það tengingin.
Nígeríubréf eru góð skemmtun og væntanlega er bara gott hve algeng þau eru. Fólk fellur þá væntanlega síður fyrir þeim. Ég er ekki af þeim skólanum sem segir að ef fólk er nógu vitlaust til að falla fyrir þessu þá eigi það þetta skilið. Kannski ef þetta fólki væri einangrað og væri bara að klúðra þessu fyrir sig sjálft en flestir eru í leiðinni að klúðra málunum fyrir fjölskyldur sínar og það er verra.
Það væri þægilegt að einhver ættingi sem maður þekkti ekki neitt myndi allt í einu arfleiða mann að peningum. Reyndar hef ég lent í því. Þannig að þetta er ekki óþekkt. Ég fékk hins vegar bara bréf frá sýslumanninum á Stykkishólmi en ekki á hotmailið mitt. Þetta voru þó engar milljónir, ekki einu sinni íslenskar.
En já, það sem er of gott til að vera satt er semsagt yfirleitt ekki satt. Munið það börnin góð.