Með forsetanum (ekki Íslands sko)

Heimsókn forseta Evrópusamtaka þjóðfræðinga gerir lífið skemmtilegt.  Seinnipartinn í dag fór ég með henni á Þjóðminjasafnið.  Ég hafði platað Eggert (safnafræðinginn) og Rósu (starfsmanns safnsins) með mér sem leiðsögumenn en reyndar langaði mig aðallega bara að kynna þau fyrir henni.  Við áttum skemmtilegan túr um safnið.

Ég tók þá góðu ákvörðun í morgun að hafa bílinn og það kom sér vel þegar við þurftum að koma okkur af safninu yfir á heimili Valdimars.  Ísland var ekkert að sýna sínar skemmtilegustu hliðar.  Það var skemmtileg samkoma heima hjá Valdimar.  Ég held að allir kennararnir hafi komið en framhaldsnemar voru fullfáir.  Sumir höfðu góða afsökun en aðrir ekki.  Við Bryndís og Tommi héldum uppi heiðri framhaldsnema.

Ég átti skemmtilegt spjall við Terry þar sem hann sagði að ég væri brosmildari heldur en ég hefði verið síðast þegar ég hitti hann.  Ástæðan er aðallega sú að ég hef í millitíðinni skilað inn öllum umsóknum en samkoman var líka skemmtileg.  Terry stakk mig reyndar af um leið og ég minntist á að Regina hefði gert rannsókn á grímubúningum í Sviss.  Hann varð alveg ákaflega spenntur enda er þetta eitt aðaláhugamál hans.

Ég ákvað að fara ekki með eftirlegukindum á Tapasbarinn enda hef ég ekki jákvæðar minningar þaðan frá síðustu, og já einu, heimsókn minni þangað.  En já, mikið spjallað og mikið gaman.  Bendix er mjög indæl.