Múrinn kveður. Það eru vissulega tímamót. Ég held að það megi með sanni segja að Múrinn hafi haft töluverð áhrif á það að ég tók nokkur skref til vinstri fyrir nokkrum árum.
Er það rétt sem Stebbi Páls segir að pólitísku vefritin séu að víkja fyrir bloggum? Ég held að það sé slæm þróun. Ég verð hins vegar að játa að heimsóknum mínum á Múrinn hafi fækkað síðustu árin. Með fullri virðingu fyrir þeim sem tóku við þá var gullöld Múrsins liðin. Sú breyting sem varð á Múrnum þegar þrír úr upphaflegu ritstjórninni yfirgáfu hana breytti eðli hans. Í kjölfarið varð Múrinn í raun að týpísku pólitísku vefriti. Snilldin fólst í því að áður var hann svo mikið meira.
Ég gerðist svo frægur að fara á tvo viðburði á vegum Múrsins. Ég fór á fyrirlestur með Mark Steel og ég fór á Skemmtikvöld Múrsins. Skemmtikvöldið var snilld, sérstaklega var Atómstöðin á 7 mínútum vel heppnuð. Ég held að þar hafi ég í fyrsta sinn lent í því að einhver hafi þekkt mig eingöngu af blogginu. Sverrir Guðmundsson, sem ég hafði haft óþol fyrir lengi sökum þess að hann vann alltaf Gettu Betur, spurði “Ert þú Gneistinn?”. Þetta var í raun hálfgert bloggpartí enda aðallega auglýst á bloggsíðum ef ég man rétt.
En ég þakka fyrir mig, þetta var skemmtilegt.