Ábyrgð á netinu

Hver ber ábyrgð á athugasemdum við bloggfærslur? Ég myndi halda að það sé bara svipað og á blöðunum, ef sá sem skrifar athugasemdina er nafngreindur þá ber hann ábyrgðina en ef þetta er nafnlaust þá er það bloggarinn (ígildi ritstjóra) sjálfur. Ég myndi þó segja að bloggarinn ætti að fá tíma til að fjarlægja athugasemdina ef hann er beðinn um það.

Málið er samt stundum flóknara. Sumir skrifa ekki athugasemdir undir fullu nafni þó augljóst sé um hvern sé að ræða eða þá að auðvelt sé að komast að því hver það sé. Þetta er til dæmis þannig á Moggablogginu að fólk er með dulnefni. Hins vegar væri auðvelt að fletta því upp um hvern hafi verið að ræða þar sem Moggabloggið krefst kennitölu þegar fólk skráir sig (hvort það sé manns eigin kennitala er annað mál). Flókið mál allavega. Ef við tökum þá reglu að dulnefni sé ígildi nafnleysis þá gæti það jafnvel orðið til þess að Mogginn sjálfur sé ábyrgur fyrir því sem birt er þannig.

Sumir bloggarar geta ekki eða kunna ekki að eyða athugasemdum. Er ábyrgð þeirra jafn mikil og þeirra sem ekki vilja eyða athugasemdum?

Mér þykir líka áhugavert að pæla í því hvernig lögsagnarumdæmi virkar í netheimum. Nú er þessi vefur hýstur í Bandaríkjunum, minnir mig, og ekki að neinu leyti skráður á Íslandi þó efnið á hann sé skrifað hér (að mestu). Hvar væri hægt að kæra mig? En ef ég skrifaði á ensku? En ef ég skrifa færslu í útlöndum? Skiptir máli hvort hún væri á ensku eða íslensku?

Tengt þessu eru spjallborð. Hver er ábyrgur fyrir efni á Barnalandi? Mogginn? Styrmir sjálfur?

Er engin ábyrgð fólgin í því að vísa á vefsíðu og segja að þar sé eitthvað vafasamt?

Þetta eru allt hlutir sem þyrftu að komast á hreint.