Eyjan hefur opnað. Það kemur mér eiginlega mest á óvart að sjá Frelsisfranskar þarna inni og ég er eiginlega á því að það sé áhugaverðasta bloggið sem þeir hafa náð þarna inn. Enginn annar sem er á BloggGáttinni minni. Reyndar les ég Gvend og Tomma reglulega. Annars eru fáar konur þarna. Ef ég hefði verið að sigta út aðalbloggarana á Moggablogginu þá hefði ég til dæmis pikkað upp Önnu Kristjáns. Síðan eru reyndar eðalkvenbloggarar á þessum sjálfstæðu bloggeyjum en þær eru væntanlega sáttar við sitt. Nanna Rögnvalds hefði að sjálfssögðu verið fín viðbót en kannski ekki á þeirra sviði.
Vefurinn sjálfur er ekki alveg nógu góður. Það birtist til dæmis scrollbar hérna að neðan hjá mér í Explorer (eitthvað undarlegt fokk bæði með Firefox og Opera). Síðan finnst mér þetta bara fullmikið af efni á forsíðunni. En ég er náttúrulega minímalisti í vefhönnun.
Annars þá finnst mér þetta undarleg tímasetning að setja svona netmiðil af stað að sumarlagi. Fólk er ekki að skoða netið á sumrin. Betra hefði verið að starta þessu að hausti til. Það verður áhugavert að sjá hvernig þetta þróast.
En ég er samt einfaldlega ekkert rosalega spenntur fyrir þessu en það segir væntanlega best um blogglestrarvenjur mínar. Ég hef gaman af fólki sem bloggar um allt og ekkert, uppáhalds teiknimyndasögurnar sínar, biluðu heimilistækin og fræga fólkið sem það hefur hitt.
Þetta virðist hins vegar verða blóðtaka fyrir Moggabloggið. Ég held að „gullöld“ þess sé liðin. Ellý Ármanns hefur hrunið í lestri enda eru ljósbláu sögurnar hennar ekki spennandi til lengdar, ekki einu sinni þegar hún virðist gera tilraun til að hneyksla með smá unglingaklámi. Það líður ekki á löngu þar til það eina sem sést þar verður Jón Valur og hinir trúarnöttararnir, Stebbifr að endursegja fréttir, Gísli Valdórs að „verja fyrir frelsið“ og Ómar Ragnarson að BLOGGA MEÐ FYRIRSAGNIR SEM ERU Í HÁSTÖFUM.
Það er reyndar áhugavert fólk þarna ennþá, femínistarnir hafa ekki flutt, brjálaður anarkisti er búinn að vekja athygli og Jens Guð er síðan skemmtilegur bloggari sem ég ætti að bæta við á BloggGáttina mína.
Það er kannski aðal sigurvegarinn í kjölfar þessar upplausnar MoggaBloggselítunnar, BloggGáttin. Skráið ykkur þar, búið til eigin lista eða bara fylgist með fyrirsögnum þar. Þeir munu líka bæta við nýjungum bráðlega.
Ég er latur að setja tengla inn í blogg en það tengist líka því að WYSIWYGið er ekki að virka í Explorer.