13:30
Sit á Stansted og reyni að komast í ódýra eða ókeypis nettengingu. Við mættum á flugvöllinn um fimmleytið í morgun og ég var nær fyrstur í röðinni. Jakob kom með foreldrum sínum áður en byrjað var að innrita þannig að við náðum að fá sæti saman. Það var erfitt að skilja við Eygló á flugvöllinum en ég herti mig og hafði þetta af. Við Jakob ráfuðum síðan um Leifsstöð saman og í sitt hvoru lagi.
Flugið gekk merkilega vel. Við náðum að vinna heila klukkustund í loftinu þar sem hvorugur hafði áttað sig á að Bretar og Írar eru enn á sumartíma. Við fengum okkur að borða á stað sem heitir Ponts eða eitthvað álíka. Ég var glaður með lasagnað mitt en Kobbi óglaður með samlokuna sína. Við röltum síðan aðeins saman um í leit að annars vegar rútunni hans Jakobs og innrituninni hjá RyanAir fyrir mig. Ég kvaddi síðan Jakob.
Farangurinn minn var of þungur og ég náði að raða þessu þannig að ég var með rúmlega 10 kíló í handfarangri og 25 í töskunum sem voru innritaðar. Yfirvigtin kostaði 55 pund. Jey.
Hérna rétt hjá mér er írsk fjölskylda og ég þarf að hafa mig allan við til að skilja hvað þau eru eiginlega að segja. Ég æfist væntanlega í hreimnum.
Ég flýg héðan um klukkan fjögur og get því skoðað allt það sem flugvöllurinn hefur upp á að bjóða.
