Hræðslupúkinn ég

Dagbjört vinkona mín spurði mig einhvern tímann hvernig ég gæti verið svona rólegur yfir því að fara út. Ég svaraði því einfaldlega að ég væri í raun skíthræddur við það. Að eyða svona löngum tíma á ókunnum stað með ókunnu fólki, langt frá vinum og fjölskyldu. Augljóslega er langerfiðast að vera svona langt frá Eygló. Ég reyndi alltaf að róa mig þegar ég spjallaði við hina og þessa sem voru að fara að gera erfiðari hluti en ég. Harpa sem var með mér í Odda var að fara til Úganda. Bryndís er í Berkeley og verður þar heilt skólaár. Ég kem meira að segja heim í nokkra daga mánaðarmótin október-nóvember.

En nú þegar ég er kominn er ég að spyrja sjálfan mig hvers vegna í ósköpunum ég hafi látið mér detta þetta í hug. Ég er heimakær og ég er ekki ævintýragjarn. Ég er mjög einn. En ég held að ég þrauki. Væntanlega að ég að ganga í gegnum þessi kúltúr sjokk skref sem Sigrún bloggaði um um daginn. Það að kynnast sambýlingunum ætti að hjálpa. Það ætti líka að hjálpa þegar ég hitti eitthvað af erlendu nemunum í kvöld. Í næstu viku mun ég síðan líka hitta samnemendur og kennara.

Í gær spjölluðum við Eygló á Skype. Hún var með vefmyndavélina í gangi í dálítinn tíma en aðallega vorum við bara að spjalla. Það er voða gott að geta heyrt í henni og hún í mér án þess að þurfa að hafa áhyggjur af símareikningnum.