Ég ákvað að vakna snemma til að komast í orientation. Ég snússaði bara í tuttugu mínútur. Á meðan ég borðaði morgunverð spjallaði ég við Raffa sem er sá sem mér fannst vera minna hrifinn af mér. Hann sagði mér að hann héldi að þetta dæmi byrjaði hálftíu en ég hélt það byrjaði klukkan tíu. Síðan kom Alejandro á nærbuxunum af baðherberginu. Það var óþarfi að líta til okkar í eldhúsið. Ég tjékkaði á mínum skjölum og þar stóð að við ættum að mæta klukkan tíu í landafræðihúsið.
Ég rölti alla leið. Þetta er í raun frekar indæll göngutúr. Tekur væntanlega um 45 mínútur. Þegar ég mætti var fólk að þvælast út um allt en ég gat ekkert elt það því það var greinilega ekki að fara á Erasmus dótið. Ég fann landafræðihúsið en það var grunsamlega lítið að gerast þar. Væntanlega vitlaus staður semsagt. Ég ráfaði aðeins og rakst síðan á Þjóðverja sem var greinilega búinn að fá sömu upplýsingar. Við fórum saman og spurðum til vegar og þá var okkur bent á Kampus Kitchen. Það var rétti staðurinn og það byrjaði víst hálftíma fyrr.
Ég settist hjá sambýlingum mínum sem hlógu fyrst aðeins af mér og síðan að sér sjálfum þar sem þeir höfðu bara verið að mæta. Það fyrsta sem ég heyrði af fyrirlestrinum var „Þá er ég búinn með mitt, við erum aðeins á undan áætlun, tökum stutt hlé“. Hinum megin við mig var Þjóðverjinn sem ég fékk seinna að vita að heitir Johannes við hlið stúlku. Stúlkan var að sýna Johannesi eitthvað sem þau sem mættu á réttum tíma höfðu fengið. Ég fékk líka að sjá og þegar á leið byrjaði ég aðeins að spjalla við stelpuna. Johannes var þá búinn að hitta þýska stelpu (Steffie) og með athyglina þar. Stúlkan með planið heitir Kristyna og er frá Tékklandi, Brno. Ég gat spjallað um vin minn sem er mikill Tékkófæll.
Þarna voru líka fyrirlestrar og mér fannst alltaf eins og ég væri ekki að skilja neitt (eða misskilja allt). Þessu lauk með því að við tókum túr um háskólasvæðið. Háskólasvæðið verðskuldar nokkur orð. Um leið og ég kom inn á það var ég heillaður. Tré og falleg brú heilsa manni. Síðan koma húsin og þau segja svo skýrt að þetta sé Campus. Ólíkt öðrum háskóla sem ég hef stundað nám í. Ég hlakka til að skoða bókasafnið sem er kennt við Boole sem er gaman fyrir okkur bókasafns- og upplýsingafræðinörda sem fatta tenginguna. Elsta húsið er líka stórglæsilegt og fallegt.
En já, eftir göngutúrinn þá fórum við Kristyna og fengum ókeypis kjúkling frá heimspekinemum. Náðum reyndar næstum síðustu stykkjunum. Við sátum síðan á grasinu og spjölluðum. Hún er 21 ár og er á þriðja ári í BA að læra ferðamálafræði/tungumál á Ítalíu. Mjög indæl og fyndin stelpa. Við vorum að bíða eftir að klukkan yrði nógu margt til að við kæmumst í að skrá okkur formlega. Við fórum síðan saman í Boole kjallarann þar sem ekkert gekk í skráningunni lengst af. Þar hittum við líka tékkneska stúlku sem heitir eitthvað eins og Margrét og þýska stúlku sem heitir Marianne. Reyndar var kannski ágætt að tölvukerfið hrundi því þá gátum við spjallað meira. Ég bloggaði líka.
Eftir þetta fórum við niður í bæ, ég sýndi þeim Argos og við fórum síðan í Tescos og keyptum okkur skonsur, ost og vatn. Þá var klukkan að nálgast sjö og við þurftum að drífa okkur aftur í UCC til að taka þátt í borðspurningakeppni (sem á íslensku er pöbbkviss). Reyndar gátu Marianne og Margrét ekki komist þannig að við fórum bara tvö. Á staðnum hittum við síðan Johannes og Steffi sem ákváðu að vera með okkur í liði og síðan bættist gríska stúlkan Adonia við ásamt hinni frönsku Anne. Ég borðaði líka skonsurnar sem voru ekki góðar.
Liðið okkar var kennt við Tyrone sem er væntanlega ein af minnst þekktu sýslum Írlands. Ég tók merkilegt nokk af skarið snemma og stjórnaði liðinu. Í miðjum leik komust við ekki á lista hinna efstu. Síðan fór ég aðeins að fíflast með svörin og rétta mín upp í loftið um leið og við höfðum klárað til að sýna hve merkileg við værum. Liðsfélagar mínir kvöttu mig áfram í þessu og konunum frá Alþjóðaskrifstofunni fannst þetta líka fyndið. Þegar ég rétti upp blaðið með lokasvörunum þá var ég kallaður upp og fékk sérstök aukaverðlaun fyrir áhugasemi (öll önnur aukaverðlaun höfðu verið dregin út). Ég gat valið milli lyklakippu og íþróttatösku. Regnhlífarnar höfðu klárast fyrst og síðan bolirnir. Ég valdi íþróttatöskuna af praktískum ástæðum.
Síðan voru úrslitin kynnt og við unnum ekki. En við urðum í öðru sæti sem gladdi alla í liðinu. Við fengum verðlaun. Ég fékk penna merkta UCC en sumir USB lykil merktan skólanum. Við ræddum um að fara út saman en flest ákváðum við að sleppa því enda var klukkan að verða níu og við búin að vera að vesenast í rúma 12 tíma flest. Ég varð Kristynu samferða niður að næstu vel upplýstu götu og fór síðan í hina áttina enda bý ég lengst frá öllum (nema Steffi sem býr hér líka í húsinu).
Ég kom við á sama stað og ég fékk vondan borgara í gær. Pantaði hvítlauksbrauð með osti og skinku. Það var nokkuð gott og ég sá ekki eftir þessum rúmu 20 sentum sem fóru í tipkrukkuna (ég er ekki búinn að ná því öllu saman).
Ég fór í sturtu áðan og mér fannst vera nærri eilífð síðan ég fór í baðið á þriðjudaginn. Mjög gott. Lyktin af bolnum mínum var líka frekar óspennandi enda var ég með bakpoka í mestallan dag.
Netið er ennþá óaðgengilegt en núna virðist það bara stillingaratriði en ekki neitt alvarlegt.
En mér þótti dagurinn semsagt góður. Mér líður ekki eins og ég sé einn í heiminum. Né Cork.
Á morgun hitti ég síðan væntanlega fólk úr þjóðfræði, kennara og nemendur. Mun líka fá stúdentaskírteini sem veitir mér aðgang að hinu og þessu. Grúví.
