Ég hafði spjallað um það við Antoniu að við hefðum ekki farið á nein söfn í borginni þannig að í dag fórum við á sögusafn borgarinnar. Það var allt í lagi svosem en Eggert hefði fríkað út yfir því hve mikið af dóti var hrúgað þarna saman. Eftir á fórum við heim til hennar og kláruðum afganginn frá því í gær. Þá horfðum við á Írland-Þýskaland með Fabian, Sebastian, Angeliku og Sam (herbergisfélaga Antoniu).
Sam hafði aldrei séð fótboltaleik áður og ég tók að mér að útskýra hve leiðinleg íþróttin væri (sérstaklega til áhorfs). Það var reyndar alveg óþarfi því leikurinn var hundleiðingur og þýsku drengirnir sem voru fyrst móðgaðir vegna yfirlýsinga minna voru undir lokin farnir að taka undir þetta.
Til að hressa upp á þetta skiptum við reglulega yfir á rugbí, Frakkland gegn Englandi. Það virðist vera miklu skemmtilegri íþrótt. Best var samt þegar við horfðum á brot úr gömlum hurling leik. Ég verð að segja að mér fannst sú íþrótt eiginlega meira brútal en rugbí. Allavega notar fólk bara líkamann til að meiða mann þar, í hurling er maður ítrekað barinn með kylfu.
Þetta leystist upp eftir leikinn og ég rölti heim. Full langur göngutúr, rúmar 40 mínútur.