Ég held að þetta komment sem Egill Helgason birtir sýni ágætlega hvað fólk sem er að verja Tíu litla negrastráka er langt út á þekju. Egill heldur hins vegar að það styrki málstað sinn sem segir ýmislegt um hann.
“Út af umræðunni um barnabækurnar vil ég benda á H.C. Andersenævintýrin eins og þau eiginlega bara leggja sig og sama má segja um Grimms-ævintýrin. Ekkert nema ofbeldi gegn börnum (Hans og Gréta borin út), barnaþrælkun (Öskubuska), einelti (Litli ljóti andarunginn),útlitsdýrkun (Prinsessan á bauninni), kaldrifjuð peningadrifin morð (Eldfærin) en umfram allt kannski afar staðlaðar föðurímyndir um hinn veikgeðja fjarverandi föður sem aldrei er börnum sínum til nokkurs gagns og lætur uppeldið í hendur tálkvenda af verstu sort (Öskubuska, Mjallhvít, Hans og Gréta osfrv.).”
Ókei. Í fyrri partinum er verið að halda því fram að það sé umfjöllunarefnið sjálft en ekki boðskapurinn sem geri söguna vonda. Það er eins og að segja að gagnrýnin á Tíu litla negrastráka sé sú að þar sé fjallað um svört börn en ekki hvernig er fjallað um þau.
Sá sem skrifaði þetta virðist ekki alveg vera með allt á hreinu um þessar sögur sem hann velur. Það er engin útlitsdýrkun í Prinsessunni á bauninni (ég held ég myndi samt ekki velja þessa sögu ef ég væri lesa fyrir börn). Við gætum hins vegar sagt að það sé einhvers konar útlitsdýrkun í Litla ljóta andarunganum en ég held að það væri einföldun á boðskapnum. Ég held að fegurð svansins sé líklega myndlíking fyrir þá ósýnilegu möguleika sem er að finna í börnum. Það er að sjálfssögðu ekkert nema nauðsynlegt að fjalla um einelti. Ég sjálfur man bara ekki eftir Eldfærunum og get því ekki kommentað á þá sögu.
Grimmsævintýrin finnst mér að sjálfssögðu miklu áhugaverðari enda á mínu sviði. Eins og með einelti þá tel ég ekkert nema sjálfssagt að fjallað sé um ofbeldi gegn börnum og óhæfa foreldra. Í þessum sögum er það sett í öruggan búning. Ef menn vilja kynna sér kenningar um hvernig þessi ævintýri geta hjálpað börnum þá er hægt að benda á skrif Bruno Bettleheim (eða bók Geza Roheim sem Bruno á að hafa “hermt” eftir, hef reyndar ekki lesið hana). Í þessum sögum lenda börn í erfiðum aðstæðum og sigrast á þeim. Takast á við ótta sinn.
En að sjálfssögðu ættu allir sem eru að velja sögur fyrir börn sín að íhuga hver boðskapur þeirra sé. Ég er viss um að það sé til alveg fullt af þjóðsögum og ævintýrum sem alls ekki ætti að lesa fyrir börn.
En vill einhver útskýra fyrir mér hver boðskapurinn í bókinni Tíu litlir negrastrákar er? Og þá hvers vegna sá boðskapur á erindi við börn í nútímanum. Það væri fróðlegt.