Það er mið nótt og ég er því miður vakandi. Ef ég væri bara búinn að snúa við sólarhringnum sjálfur eins og ég geri reglulega þá væri þetta ekki mikið mál. Líkami minn er hins vegar bara ringlaður eftir að hafa sofið óreglulega, mikið en illa, yfir helgina.
Hugurinn er líka kominn á flug. Ekki djöflar að ásækja mig í húmi nætur heldur pælingar um hitt og þetta. Væntanlega heimkoma er mér ofarlega í huga. Síðan hvað ég geri eftir áramót og svo framvegis. Minn vandi er að ég hef of margar hugmyndir. Eina neikvæða sem ég hugsa er það að ég lenti eftir á með ritgerðir í veikindaveseninu. Verð að redda því á milli þess sem ég kveð allt og alla og kaupi síðustu minjagripina og gjafirnar. Tvö kveðjupartí með erlendum nemum um næstu helgi og vonandi næ ég líka að kveðja John almennilega.
Það verður undarlegt að yfirgefa þennan skrýtna litla heim sem ég hef þrifist í. Þetta er einmitt önnur veröld en ekki bara annar staður. Jafnvel annar veruleiki. Reyndar lít ég alltaf á litla herbergið mitt sem einskonar afkima sem ekki tengist landafræðilegri legu minni á nokkurn hátt. Þetta er staðurinn þar sem dótið mitt er og rúmið „mitt“. Hér get ég slakað á og gleymt því að ég langt að heiman. Hálfgert heimili en samt ekki.
Ó hvað ég sakna þess að hafa íslenskan mat. Ekki kannski beinlínis íslenskan en bara matinn sem maður getur fengið heima. Það er örugglega hægt að redda heilmörgu hérna og hægt að finna góðan mat en það er allt svo mikið vesen. Mig langar í Nagga, grænar baunir og kartöflustöppu. Ég er einfaldur maður. Reyndar verður fyrsta máltíðin heima væntanlega á Ruby Tuesday.
Ég sakna þess að vera heima hjá mér þar sem ég hef allt. Ég sakna þess að fara í bað, það er stórt atriði. Ég sakna þess að hafa dvd safnið mitt og geta horft eitthvað spennandi hvenær sem er. Ég sakna bókanna minna, að geta flett upp öllu sem þar er og geta gripið í skemmtilegar og áhugaverðar bækur. Ég sakna þess að liggja í rúminu mínu. Ég sakna þess líka að liggja í sófanum mínum. Ég sakna þess líka að hanga í Odda. Úff hvað ég sakna margra hluta. Það mætti halda að ég hafi verið í burtu mikið lengur.
Ég sakna vina minna. Langar að spila og spjalla.
Augljóslega sakna ég Eyglóar mest af öllu og ég hlakka til að gera allt ofannefnt með henni, það þarf eiginlega ekki að taka það fram…
p.s. á meðan þessu ritun þessarar bloggfærslu stóð vorum við Marvin að ræða um bakstur.