Tilgáta um drauma

Undanfarið hef ég tekið eftir að það er mjög mikið um að fólk sé að segja mér undarlega drauma. Á sama tíma hefur mig dreymt meira af skrýtnum draumum en ég er vanur. Í gær var ég að spá í þetta og myndaði smá tilgátu.

Ef það er ekki bara rangt hjá mér að fólk sé að dreyma undarlega í kringum mig, sem það gæti reyndar verið vegna til dæmis staðfestingartilhneygingar og sýndarklasa skynvillunnar,  þá gæti sökin legið hjá sólinni. Hugsanlega er snemmmorgunsólin eitthvað að rugla í heilastarfssemi fólks.

Ég er ekki að segja að birtan valdi endilega undarlegri draumum. Líklegri skýring væri að svefn fólks raskist einhvern veginn og það sé því líklegra til að muna drauma sína.

Á sama tíma gæti þetta skýrt þá tilhneigingu Íslendinga að tala mikið um drauma (sem ég held að sé nokkuð óumdeild). Ef sólin hefur svona áhrif þá ætti hún að hafa mikil áhrif hér en lítil áhrif hjá fólki sem býr við staðfastari sólargang.

Það væri áhugavert að vita hvort þetta hafi eitthvað verið rannsakað. Ef þetta hefur hins vegar ekki rannsakað þá hvet ég einhverja til að ganga í málið og ef fyrirbærið er raunverulega til þá ætti að nefna það eftir mér. Bara sanngjarnt sko.