Mjólkurbúðir og litasjónvarp

Þjóðfræðilexía.

Nú verð ég að játa að ég hef ekki kynnt mér feril Steingríms Joð Sigfússonar í heild sinni og vona því að ef einhver þekkir betur til geti leiðrétt mig. Ég var allavega að rekast á frekar undarlegar staðhæfingar um feril Steingríms. Hann á sumsé að hafa verið á móti litasjónvarpi og lokun mjólkurverslana. Þetta eru hvoru tveggja þingmál frá árinu 1976. Þá var Steingrímur að útskrifast frá Menntaskólanum á Akureyri.

Nú útiloka ég ekki þann möguleika að Steingrímur Joð hafi verið harður andstæðingur þess að loka mjólkurbúðum eða að hann hafi, eins og svo margir landsbyggðarmenn, talið meiri nauðsyn á að bæta útsendingaskilyrði frekar en taka upp litasjónvarpi (enda það bara skynsemi). Ég veit bara ekkert um það.

Ég efast hins vegar stórkostlega um að þessir frjálshyggjustrákar sem halda þessu fram hafi farið í gríðarlega heimildarleit til að komast að því hvaða skoðanir Steingrímur Joð hafði á þessum málum. Þeir hafa heyrt sögu sem samrýmdist þeirra heimsýn og því trúað henni hugsunarlaust.

Líklegast er náttúrulega að hér sé um að ræða sögur af eldri þingmönnum sem hafa endurnýjast. Gamlar sögur fá nýjar aðalpersónur til að þær geti lifað áfram. Eftir að George Bush varð forseti byrjaði ég að heyra töluvert af sögum um hann sem voru undarlega kunnuglegar. Ástæðan er sú að ég hafði áður heyrt þær með fyrrverandi varaforsetanum Dan Quayle í aðalhlutverki. Sama á við um sögur af Marilyn Manson sem voru margar endurunnar úr Alice Cooper/Ozzy Osbourne sögum.

Ekki trúa hverju sem er börnin mín.

8 thoughts on “Mjólkurbúðir og litasjónvarp”

  1. Mér þykir sagan um að VG hafi verið á móti bjórnum líka einkar hvimleið. Flokkurinn var stofnaður 10 árum síðar og þingmenn allra flokka greiddu atkvæði gegn frumvarpinu!

  2. Jújú, Hallgrímur Helga skrifaði einu sinni grein upp úr Quayle-frösum sem hann eignaði George W. og öllum fannst það voða sniðugt.

  3. Sem gömul skólasystir Steingríms get ég vottað að ég man ekki sérstaklega eftir andstöðu hans gegn lokun mjólkurbúða, enda voru þær eitthvað sem tíðkaðist fyrir sunnan og við höfðum því lítinn áhuga á í þá daga. Ekki man ég heldur eftir að litasjónvarp væri rætt, aðalmálið var að koma sjónvarpinu á herbergi 47 í gang en til þess þurfti að berja þungum öskubakka á ákveðinn stað á annarri hlið þess, það dugði venjulega.

    Ég man ekki betur en Steingrímur væri helst talinn til framsóknarmanna á þessum árum (sem hann er náttúrlega enn) og aðalritgerðin hans í 6. bekk var um minkarækt – það veit ég vegna þess að ég vélritaði hana fyrir hann og fékk Smirnoff-flösku að launum.

    Steingrímur var öflugasti bjórbruggari MA veturinn 1975-76 og því þótti mörgum fastagestum í Steins-breweryi það mjög skondið þegar hann gerðist einn alharðasti andstæðingur bjórsins á þingi rúmum áratug seinna.

  4. Uss, hvers ætti það að koma á óvart Nanna, heldurðu að hann hafi ekki bara ennþá verið í bransanum? Maður vill ekki samkeppni. Ekki berjast sprúttsalar fyrir afnámi áfengissölubanns 😉

  5. Ja, varðandi bjórmálið þá er fullmikil einföldun að Steingrímur hafi verið harðasti andstæðingur lögleiðingar á þingi. Hann greiddi hins vegar atkvæði gegn endanlega frumvarpinu eftir að allar breytingartillögur hans í málinu voru felldar. Það er tiltölulega algeng hegðun meðal þingmanna og ekki óeðlileg að vilja ekki taka ábyrgð á frumvörpum sem þeir hafa engin áhrif fengið að hafa á. Ég hygg að þeir teljist hafa verið harðari andstæðingar sem voru á móti málinu frá A-Ö og þeir komu úr flestöllum flokkum eins og komið hefur fram hérna.

    Gangur bjórmálsins á þingi verður annars ræddur ítarlega í sögu ÁTVR sem kemur út á næsta ári.

  6. Það er reyndar satt, Steingrímur var skotinn í færeyska fyrirkomulaginu um að menn mættu kaupa brennivín og bjór ef þeir hefðu borgað skattana sína að fullu.

Lokað er á athugasemdir.