Væri ekki lýðræðislegast ef allir þyrftu að gera grein fyrir atkvæði sínu opinberlega? Þetta datt mér í hug þegar ég horfði á fólk tala um nafnleysingja á netinu í Fréttaaukanum í kvöld. Nú er ég, eins og hefur margsést, tilbúinn til að tjá mig um allt sem ég vil tala um á netinu undir nafni. Hins vegar veit ég vel að það er fólk sem getur það ekki stöðu sinnar vegna. En aftur á móti þá sjáum við ótal bjálfa tjá sig nafnlaust hér og þar án þess að hafa nokkuð vitrænt að segja. Þetta eru tvær hliðar málsins.
Mér þótti líka undarlegt viðhorf sem kom fram hjá sumum þarna um að samskipti á netinu væru þannig að margt myndi ekki heyrast í tali manna og milli. Ég er nokkuð viss um að það er ósatt. Vissulega eru netsamskipti oft snörp og harkaleg enda má segja að allir, jafnvel þeir sem koma fram undir nafni, séu grímuklæddir þar sem andlitið sést ekki og við vitum vel að svipbrigði skipta miklu máli í mannlegum samskiptum.
Það má hins vegar ekki gleyma að það eiga sér stað mjög harkaleg skoðanaskipti í raunveruleikanum. Menn er kallaðir gungur og druslur og sagðir hafa skítlegt eðli á Alþingi. Sum rifrildi í raunveruleikanum enda í slagsmálum og jafnvel með morði. Þetta eru augljóslega öfgakennd dæmi en við megum ekki gleyma þeim.
En mér þótti þessi umfjöllun allavega ákaflega grunn enda voru viðmælendurnir frekar óspennandi og höfðu flestir minna vit á málinu heldur en til dæmis ég.