Ég var um daginn að uppfæra í tölvunni til að koma í veg fyrir að ég lenti í vandræðum um árið 2011. Málið er að árið 2001 skipulagði ég mp3 safnið í tölvunni minni. Ég setti þetta upp eftir áratugum. Í möppuna 1981-1990 fóru lög með hljómsveitum sem gáfu fyrst út efni á níunda áratugnum. Ég bendi á að ég nota rökrétta tímatalsáratugi þarna. En ég bjóst ekki við að ég byggi enn við þetta kerfi árið 2011 þannig að ég setti síðustu möppuna bara 2001-. Nú var þetta farið að nálgast ískyggilega þannig að ég þurfti að laga kerfið.
Auðvitað er auðvelt að breyta nafninu á möppunni en verra er þegar spilunarlistar byggja á þessum möppuheitum. Ég þurfti því að finna alla lista sem vísuðu á þessar möppur, opna sem textaskjöl og gera find og replace. Þegar ég eignast síðan tónlist með hljómsveit eða listamanni sem var að gera sína fyrstu plötu árið 2011 get ég bætt einni möppu við og þarf ekki að hugsa um málið næsta áratug.