Í dag er seinni dagur Stúdentaráðskosninga. Ég kaus Skrökvu í gær og hvet aðra til að gera hið sama.
Í vikunni var ég á ferðinni um Háskólann og sá einhvern náunga með Vökumerki vera að þvaðra um Skrökvu. Þetta var eiginlega orðrétt það sama og var alltaf sagt um Háskólalistann. Bara eitt málefni og svo framvegis. Það sem Stúdentaráð þarf á að halda meira en nokkuð annað er að það lyfti sér upp úr þessum leiðinda sandkassaslag sem hefur verið í gangi frá því löngu áður en ég kom í Háskólann. Það verður ekki gert án þess að sprengja núverandi kerfi í loft upp. Það verður ekki gert með því að kjósa Röskvu eða Vöku.
Stúdentaráð á að vera þrýstiafl í þjóðfélaginu. Það á að geta ýtt á Alþingi, Menntamálaráðuneytið og reyndar líka Háskólann sjálfan til að gera skólann betri. Það er ekki að gerast með núverandi kerfi.
Oft á tíðum dansaði Háskólalistinn á línunni með að slá öllu upp í grín en við völdum að fara ekki alla leið með það. Ég tel það hins vegar engan galla á Skrökvu að þau geri það. Það getur verið voðalega leiðinlegt að vera fastur á milli Röskvu og Vöku (hvernig er línan í laginu góða?) og því get ég ímyndað mér að hláturinn hjálpi mikið.
Grín eða ekki grín? Skrökva fékk tækifæri til að sýna sína liti á fyrsta ári sem var gert með því að mynda „þjóðstjórn“ í Stúdentaráði. Ekkert minni- og meirihlutakjaftæði.
Farið (í Ugluna) og kjósið. Ef þið viljið öðruvísi stúdentapólitík er Skrökva eina valið.