Stefna Strætó skýrð

Um daginn var frétt um hagnað af Strætó þar sem kom líka fram að hagnaðurinn hefði verið meiri ef ekki væri fyrir fjölgun farþega.

Auk þess hefur fjölgun strætisvagnafarþega, eins og verið hefur undanfarna mánuði, haft í för með sér aukinn kostnað og mun að öllum líkindum hafa neikvæð áhrif á afkomu Strætó við núverandi aðstæður.#

Skyndilega varð stefnan hjá Strætó skiljanleg. Ef farþegar eru ekki æskilegir þá er fullt vit í því að fækka ferðum og leiðum og almennt hræra í áætlunum. Besta niðurstaðan væri augljóslega að hætta keyrslunni alveg og útdeila „hagnaðinum“ beint til stjórnar Strætó sem getur þá verið einstaklega stolt af árangrinum.

7 thoughts on “Stefna Strætó skýrð”

  1. Alveg rétt, þeir sem stjórna byggðasamlaginu eru ekki að reka strætó fyrir eigendurna, þ.e. almenning í sveitarfélögunum og þarfir hans, heldur fyrir bókhaldið. þannig að best væri að minnka þjónustuna enn meira og hækka líka fargjöldin.

  2. Átta mig ekki alveg á þessu, er það þá vegna fleiri ferða sem þeir eru að tapa á þessu? Fjölguðu þeir semsagt ferðunum útaf fjölgun farþega? Mér finnst alltaf frekar kjánalegt þegar slegið er upp í fjölmiðlum flennistórum fyrirsögnum um að ýmis almannaþjónusta „tapi“ hinu og þessu. Auðvitað er frábært ef svona batterí græðir en við sem borgarar(hmm… lesist reyndar sennilega XD fólkið?) þurfum að sætta okkur við að stundum kostar opinber þjónusta okkur eitthvað.

  3. Einu sinni var til besta leiðakerfi hjá SVR !
    Því leiðakerfi var fórnað til að koma inn öðrum bæjarfélögum. Síðan hefur endalaust verið að hræra í leiðarkerfi Strætó.

    Besta lausnin er að fá gamla SVR til baka og fá BESTA leiðakerfið til baka !
    Þá geta nágrannabæjarfélögin haldið áfram að hræra í sínum strætó. Já og borgað endalaust með sínum strætó þegar reykvíkingar hætta að borga fyrir þá !

  4. Eitthvað segir mér að JR hafi búið í vesturbænum eða nálægt miðbænum, því gamla leiðakerfið sem hann vísar til var svo sannarlega ekki gott fyrir flest önnur hverfi rvk.

  5. Óskiljanlegt að á Reykjanesbrautinni sem tengir Reykjavikursvæðið saman að austanverðu og er ein af meginslagæðum höfuðborgarsvæðisins.

    Á Reykjanesbrautinni gengur nefninlega ENGINN STRÆTISVAGN.

  6. Já, tók eftir þessari frétt. Ótrúleg röksemdafærsla. Hugsanlega liggur einhver kostnaðarauki í fleiri farþegum, það þarf að nota stærri vagna á vissum leiðum á vissum tímum, nota 2 vagna saman á vissum tímum (það var t.d. oft gert úr Hafnarfirðinum í bæinn þegar ég notaði strætó) o.s.frv. En maður hefði nú haldið að á móti þessum aukna kostnaði við fjölgun farþega ættu að koma auknar tekjur – en kannski er búið að gera of mikið af því að bjóða gull og græna skóga til að fjölga farþegum með langtímakortum ýmiskonar og afsláttum fyrir vissa hópa. Það verður þá bara að hækka verðið og fækka ferðum til að losna við þennan óskapa farþegafjölda allan saman. Skrítinn kýrhaus.

Lokað er á athugasemdir.