Að klæmast og adda Öddu

Í vikunni lenti ég ásamt félögum mínum í því að stúlka sem við könnuðumst ekkert við reyndi að vingast við okkur á Facebook. Ég neitaði þeirri vináttu eins og öllum vinarbeiðnum frá fólki sem ég kannast ekki við. Smá eftirgrennslan leiddi í ljós að stúlkan kannaðist ekkert við að hafa sent þessar vinarbeiðnir. Þetta voru ekki einu grunsamlegu netsamskipti vikunnar.

Fyrst að klámhundinum.

Á föstudaginn opnaðist spjallgluggi hjá mér og vinkona mín byrjaði að spjalla við mig. Sú hefur ekki sést á Messenger í lengri tíma og heilsaði mér þar að auki á ensku. Mér þótti því grunsamlegt og nefndi það. Það stoppaði hana ekki. Ég ákvað að sjá hvort einhver greind væri þarna á bak við og það er skemmst frá því að segja að hún stóðst ekki Turing prófið.


Ég hafði samband við þessa vinkonu mína og upplýsti hana um að einhver hefði komist yfir Messenger aðganginn hennar. Ég get vel ímyndað mér að ótal manns hafi verið að fá álíka tilboð og það væri spennandi að vita hve margir falla fyrir þessu. Íslendingar eru alla vega ágætlega varðir fyrir þessu með tungumálamúrinn.

Sama dag kom önnur vinarbeiðni á Facebook frá stúlku sem heitir Adda Baldursdóttir. Ég kannaðist ekkert við hana og myndin hjálpaði mér ekkert að átta mig á því hver væri þar á ferð.


Ég athugaði hvort vinir hennar og áhugamál myndu hjálpa mér að átta mig á hver þetta væri. Svo var ekki. Sameiginlegir vinir okkar fjórir gáfu mér enga vísbendingu. Ég gúgglaði nafnið og fann knattspyrnukonu sem heitir því en mér sýndist það ekki vera þessa fagureygða stúlka sem er á myndinni. Áhugamál þessa væntanlega Facebook vinar míns pössuðu ekki heldur við að þetta væri fótboltakonan.

Ég var farinn að gruna Öddu um græsku og sendi einum sameiginlegum vini okkar fyrirspurn um hver þetta væri og hvort það væru fleiri myndir af henni á Facebook síðunni hennar. Svarið var að hann vissi ekkert hver þetta væri og hefði orðið engu nær því eftir að hafa samþykkt hana sem vin. Ég sendi líka skilaboð á Öddu sjálfa til að athuga hvort það væri einhver greind á bak við prófílinn.

Sæl,
Fyrirgefðu en ég veit ekki alveg hvaðan ég þekki þig – kannski af því að maður sér ekki allt andlitið þitt á myndinni þinni.

kv.

Óli

Merkilegt nokk fékk ég ekkert svar. Ég var líka orðinn nokkuð viss um að þetta væri ekki alvöru manneskja eftir að hafa framkvæmt myndaleit.

Ef þið færið músarbendilinn yfir andlitið á Öddu þá getið þið séð að hún á sér tvífara úr hópi Hollywood leikkvenna.

Ég hef enga hugmynd hver er þarna á ferð eða þá hvað liggur að baki. Ég er hins vegar nokkuð sannfærður um að stefna mína að vingast ekki við fólk á Facebook sem ég þekki ekki er góð. En nafnið er vel valið – það er skondið að fá fólk til að adda Öddu.