Ég hef verið að skoða samráðsmál Apple og útgáfufyrirtækja. Það er reyndar fyrst og fremst til að auka andúð mína á Apple sem var orðin þó nokkur vegna .ibooks mála. Málið snýst sumsé um að útgáfufyrirtæki hafa breytt sölusamningum sínum. Meðal annars er þetta til að koma í veg fyrir markaðsráðandi stöðu Amazon. Það er reyndar gott markmið en aðferðirnar eru voðalegar.
En það sem ég ætlaði að ræða var réttlætingin fyrir þessu. Hún er að verð á rafbókum. Varnarræða útgefenda er að þeir þurfi að halda verði á rafbókum háu því prentkostnaður sé svo lítill hluti af útgáfukostnaði. Reyndar gleymist þá að nefna að það er ekki bara sá kostnaður sem lækkar heldur dreifingar- og lagerkostnaður. Ef þetta samanlagt nær ekki að vera stór hluti kostnaðar við bókaútgáfu þá geri ég ráð fyrir að rithöfundar og starfsmenn útgáfufyrirtækja séu betur launaðir en ég hef áður haldið.
En í sjálfu sér er það módelið sem er gallað. Þessi fyrirtæki virðast reikna út að til þess að fá sama gróða af útgáfu rafbóka þurfi að vera sami hagnaður af hverju seldu eintaki – helst reyndar meiri. Það er metnaðarleysi. Þeir ættu að reyna að græða meiri peninga á því að selja fleiri bækur á lægra verði. Ég trúi því ekki að bókamarkaðurinn sé mettaður þannig að fólk vilji ekki lesa fleiri bækur en það gerir í dag. Ég tel að lestur kalli á meiri lestur.
Reyndar tel ég að markmið þeirra sem vilja koma í veg fyrir markaðsyfirráð Amazon sé einfaldlega að selja rafbækur á formi sem Kindle rafbókalesararnir geta notað. Það er vitað að Amazon er að niðurgreiða þessi tæki og af hverju ekki að nýta sér það. Amazon getur komið þessum tækjum til fólks en hver sem er ætti að gera selt notendunum rafbækur til að lesa. Þeir sem það gera geta líka gert það á þann hátt að kaupendur þeirra verði ekki bundnir við Kindle til framtíðar.
Amazon notar sitt eigið skráarsnið til að loka fólk inni í viðskiptum við þá til framtíðar. Einn góð lausn er að banna afritunarvarnir eins og þær sem Amazon notar til að koma í veg fyrir að hægt sé að breyta rafbókum þeirra á snið sem hentar öðrum lestækjum. Það ætti allavega að fella úr gildi lagaákvæði sem virðast banna fólki að nýta siðferðislegan rétt sinn til að tryggja varðveislu og notagildi rafbóka sinna til framtíðar. Það yrði spark í rassinn á bæði Amazon og Apple.