Minnsta og flottasta tölvan

Um helgina var ég í Julefrukost hjá Sigrúnu og Þóri og hitti þar Andra sem ég hef þekkt frá því að hann var í framboði fyrir Alþýðulistann í stúdentapólitíkinni. Við hittumst sjaldan en það er alltaf skemmtilegt að spjalla við hann. Þarna bar það helst til að hann sagði mér frá tölvu sem hann hefði verið að panta sér og heitir Raspberry Pi. Ég heillaðist alveg.

Daginn eftir var ég kominn á netið og ætlaði að panta tölvuna sjálfur en söluvefurinn benti mér á að ég gæti bara keypt hana sjálfur í Miðbæjarradió. Þar sem Eygló vinnur töluvert nær þeirri verslun en ég sendi ég hana þangað og hún verslaði tölvuna og box utan um hana á um 9000 kr.

Hér er síðan mynd af tölvunni í boxinu. Hér sumsé pínupons.

Það þarf vissulega fleira en bara þetta til að koma tölvunni í gagnið. Ég er enginn tölvusérfræðingur. Það mætti kannski kalla mig „ofurnotanda“ þar sem ég get oft nýtt tölvur á gagnlegan hátt en ég verð mjög vandræðalegur þegar ég þarf að gera flóknari sudo skipanir í Linux. En ég gat sett þetta upp.

  • Það vantaði aflgjafa. Ég notaði straumbreytinn sem fylgdi Kindlinum mínum. Ég þarf reyndar að nota millistykki þar það er bresk kló á honum. Hann gefur frá sér 850 mA sem dugar. 700 væri nóg en 1000 betra. Tengið í tölvuna er micro-usb eins og á Kindle og flestum álíka tækjum, s.s. nýrri snjallsímum og spjaldtölvum.
  • Ég þurfti minniskort. Ég átti 16 gb SDHC sem ég keypti í Mývatnssveit um árið. Það er hratt (10) sem er stór plús.
  • Ég á lyklaborð og mús.
  • Þó nettengi sé á tölvunni og maður þurfi að nota það þá setti ég líka í tækið þráðlausan netkubb (usb).
  • Ég keypti síðan usb-höbb í Tölvutek sem var valinn þar sem hann hefur sjálfstæðan orkugjafa og gefur þannig öllum tækjum og tólum sem í hann eru tengd rafmagn enda er tölvan sjálf ekki með mikið slíkt.
  • Ég átti góða HDMI snúru en svoleiðis er notað til að tengjast við sjónvarpsskjá.
  • Ég átti fyrir harðan disk til að tengjast þessu.

Ég mæli með þessum lista fyrir þá sem eru að skoða hvaða tæki og tól virka með Raspberry Pi.

Markmið mitt var að búa til „Media Center“ sem tengdist við sjónvarpið. Ég hafði verið í dáltin tíma að gæla við kerfi sem heitir XBMC. Það eru til þrjár slíkar útgáfur sem henta fyrir Raspberry PI.

Ég fiktaði í og prufaði OpenELEC, næst XBIAN og að lokum Raspbmc. Ég fattaði ekki alveg OpenELEC. XBIAN fann ekki netkortið mitt en Raspbmc virkaði strax. Raspbmc er sett upp þannig að maður halar niður forriti sem formatar SD kortið (sem er í raun harði diskur tölvunnar) og setur inn grunn. Síðan tekur maður SD kortið og setur í Pæið, tengir með netsnúru við ráter og kveikir á. Þá er líka gott að vera með tengt við sjónvarp. Uppsetningin fer þá í gang. Tölvan halar niður því sem upp á vantar og setur upp stýrikerfið.

Þegar þessu er lokið kemst maður inn í stýrikerfið. Ef maður er heppinn styður sjónvarpið manns CEC tengingar í gegnum HDMI sem þýðir að sjónvarpsfjarstýringin virkar beint á tölvuna. Ég hélt að mitt myndi ekki virka en síðan bara virkaði það.

Ég byrjaði á að fara í programs og addons til að setja inn Network manager. Það kerfi þekkti þráðlausa netkortið mitt og það tengdist vandræðalaust. Þá gat ég tekið tölvuna úr sambandi við ráterinn.

Nettenging er nauðsynleg til þess að geta halað niður viðbótum. Sniðugasta viðbótin sem ég fann var Sarpur sem veitir aðgang að þáttum RÚV. Ekki öllum þeim erlendu en fullt af stöffi allavega.

XBMC kerfið er nákvæmlega eins og sjónvarpstölvur eiga að vera. Það finnur upplýsingar um efnið sem þú ert með í kerfinu í gegnum netið og hjálpar manni að skipuleggja. Alveg yndislegt. Það eru þar að auki leikir. Það er svo rosalega lýsandi fyrir ástandið í dag að þetta kerfi sé ókeypis og búið til af fólki víðsvegar um heiminn sem vill láta gott af sér leiða. Yndislegt alveg.