Af samskiptum í tölvupósti

Það hafa flestir væntanlega heyrt af þeirri dólgslegu hegðun sem Agnari var sýnd með því að senda yfirmanni hans fundarboð. Ég veit ekki hvað þeim gekk til sem sendi þetta en þetta eru óásættanleg vinnubrögð. Það að vera blanda yfirmönnum manna í pólitísk afskipti þeirra sem hafa ekkert með vinnu þeirra að gera getur verið ákaflega óþægilegt fyrir þá.

En ég ætla að ganga aðeins lengra og segja að það hafa líka verið rangt að senda Agnari fundarboð á vinnunetfangið hans enda kom það vinnu hans ekki neitt við. Það er einfalt að finna persónulegt tölvupóstfang Agnars og það hefði átt að nota það.

Almennt er það ósiður hjá fólki að nota vinnupóst í samskipti sem ekkert tengjast vinnunni. Þetta á bæði við þegar fólk er að senda úr vinnupósti sínum eða að senda öðru fólki í vinnupóst þeirra. Það á að vera lína þarna á milli. Fólki finnst kannski voðalega þægilegt að hafa þetta á sama stað en um leið og kemur að því að skipta um vinnu þá verður þetta til vandræða. Síðan veit maður augljóslega ekkert um hvað vinnuveitandi manns gerir við tölvupóstinn. Ef um opinberan aðila er að ræða gæti verið að tölvupósturinn þinn endi á Þjóðskjalasafni með öllum þínum persónulegu samskiptum.