Flóknasta rafbókin

Í dag gefur Rafbókavefurinn út tvær bækur eftir Ólaf Briem. Ég fékk sérstakt leyfi frá frænkum hans sem eiga höfundaréttinn til að endurgera bækurnar og er mjög þakklátur fyrir. Bækurnar voru lesnar yfir í dreifða prófarkalesturskerfinu. Þessar bækur eru Norræn goðafræði og Heiðinn siður á Íslandi.

Heiðinn siður á Íslandi er flóknasta rafbók sem ég hef búið til. Aðallega er það vegna þess að bókin er með vel á fjórða hundrað endamálsgreina. Til þess að gera lesandanum lífið auðveldara þá þurfti ég að gera tengil á hverja einustu vísun og „akkeri“ á hverja einustu endamálsgrein. Ég náði vissulega að gera þetta með „find/replace“ aðgerð en eins og með allar slíkar aðgerðir þá er það flókið í löngum texta. En þetta tókst. Ég var voðalega feginn þegar ég sá að heildarfjöldi neðanmálsgreina í Norræn goðafræði er 17. Bækurnar voru síðan báðar myndskreyttar sem er alltaf dálítið fiff en mjög yfirstíganlegt.

Það er rétt að minna á að á þriðjudagskvöldið næsta verður námskeið í dreifðum prófarkalestri á Bókhlöðunni.