Í gær kláraði ég að lesa 12 years a slave sem flestir ættu að vita að er saga Solomon Northup sem var frjáls svartur maður í New York sem var rænt og seldur í þrældóm í Suðurríkjunum. Myndin er mjög trú bókinni. Einstaka atriði er þó breytt. Aðalmunurinn er kannski að myndin er í tímaröð en bókin fjallar oft almennt um reynslu Solomon. Það hefði t.d. verið erfitt að fjalla um jólahald þræla því Solomon lýsir ekki einstökum jólum og þar kemur lítið fram um hvað hann og hans fólk gerði heldur hvernig allt fór fram..
Á köflum var mér hugsað til Reisubókar Ólafs Egilssonar sem ég las í fyrra þegar hún var í vinnslu hjá Rafbókavefnum. Báðar bækurnar lýsa frjálsum mönnum sem eru hnepptir í þrældóm og sleppa. Fyrir utan að lýsa hörmungum þá eiga bækurnar sameiginlegt að detta á köflum í það að vera staðalýsingar þar sem mennirnir lýsa því sem fyrir augum ber eins og þeir séu bara venjulegir ferðamenn. Þeir skrifuðu báðir fyrir lesendur sem áttu lítinn kost að sjá sjálfir þau landssvæði sem sagan gerðist á og töldu því mikilvægt að segja frá þeim. Solomon var þó dýpri heimild fyrir þjóðháttafræðinga því hann lýsir vel handtökunum á plantekrunum og segir frá tónlistarhefðum bæði þræla og indíánanna á svæðunum.
Annars veitti bókin 1493 sem fjallar um afleiðingar landafunda Kólumbusar ágætan grunn fyrir lestur 12 years a slave. Hún skýrir vel hvernig það kom til að Evrópumenn tóku allt í einu upp á því að flytja svarta þræla til Ameríku.