Í tíunda sæti er The Works frá 1984. Þar eru fyrstu Queenlögin sem ég man eftir. Það eru Radio Ga Ga og I Want to Break Free. Ég var rétt rúmlega fimm ára þegar platan kom út og á þeim tíma sá maður tónlistarmyndbönd í sjónvarpsþættinum Skonrokk. Auðvitað man maður eftir I Want to Break Free, sem mér þótti auðvitað stórfyndið, og óljóst eftir Radio Ga Ga.
Radio Ga Ga var lagið sem innsiglaði sérstöðu Queen sem hljómsveitar þar sem allir meðlimirnir höfðu samið metsölulag. Vegna þess hve kjánalegt viðlagið er þá er auðvelt að líta framhjá því að textinn hans Roger er mjög góður. Hann er nostalgía og gagnrýni í senn. Betra lag en flestir myndu telja.
Tear it up er skemmtilegt rokklag með skemmtilegum texta. Þetta er bein tilraun Brian May til að fá aftur í lið með sér aðdáendurnar sem þoldu ekki diskódaðrið.
It’s a Hard Life byrjar á vísun í óperuna Pagliacci. Textinn fjallar um ástarsorg og er bara frábær yndislegur, eins og lagið allt. Stórgott. Eitt af þeim allra bestu.
Man On The Prowl er Freddie að snúa aftur í rokkabillífílinginn sem virkaði svo vel í Crazy Little Thing Called Love. Textinn er hressilegur og fyndinn.
Well I keep dreaming about my baby // But it ain’t gonna get me nowhere // I wanna teach my baby dancin’ // But I ain’t no Fred Astaire.
Machines (Or ‘Back to Humans’) er mjög fyndið og betra en mig minnti. Það tilheyrir alveg flokki laga sem fjalla um ótta við tölvur og tækni. Mögulega má túlka þetta sem gagnrýni Roger og Brian á stefnubreytingu Queen þegar þeir sneru baki við hljóðgervlabanninu. Hápunktur lagsins er stórkostleg upptalning Freddie á tölvudjargoni.
I Want to Break Free er óvenjulegt fyrir að lagið á plötunni er í allt annarri útsetningu en á smáskífunni (eina annað svona lagið sem ég man eftir er Flash). Þessi útgáfa byrjar á kassagítarhljómi en smáskífan er með hljóðgervlaintró. Myndbandið er eiginlega frægara en lagið en það má ekki gleyma lagið er gott.
Keep Passing the Open Windows var samið fyrir myndina Hotel New Hampshire sem Jim Beach, umboðsmannsígildi Queen, framleiddi. Af einhverjum ástæðum endaði lagið ekki í myndinni (myndin er ekki beint léleg en rosalega sérstök). Textinn er byggður á frasa úr myndinni/bókinni og fjallar um baráttu við sjálfsmorðshugsanir, sumsé að ganga framhjá opnum gluggum í stað þess að fleygja sér út um þá. Lagið er alltaf í uppáhaldi hjá mér.
Hammer to Fall er klassískt rokklag og fjallar um það að alast upp í hræðslunni við kjarnorkustyrjöld eins og við gerðum flest.
Is This the World We Created…? er eftir Brian og Freddie og þeir taka lagið bara tveir, kassagítar og söngur. Einfalt með dapurlegum texta. Þeir tóku það á Live Aid árið eftir. Mjög gott.