Ég fór út í Iceland að versla. Þar eru þrír afgreiðslukassar og miðjukassinn var einn opinn og þar var löng röð. Rétt á eftir mér kemur stelpa, um það bil sjö ár, og er miður sín yfir lengdinni á röðinni. Hún ákvað því að fara bara og setja sínar vörur á færibandið á kassa þar sem var enginn að afgreiða.
Þá kemur afgreiðslumaður og opnar þriðja kassann og ég fer í þá röð. Stelpan vandræðast með að halda á sínum vörum yfir á þann kassa og ég hleypti henni fyrir framan mig.
Hún var að kaupa eins lítra flösku af appelsíni, frosna pizzu, bland í poka og piparkökudunk. Þegar búið er að skanna inn vörurnar opnar hún veskið sitt og lætur afgreiðslumanninn hafa lúkufylli af peningum. Ég sé að það er bara einn hundrað kall þar og afgreiðslumaðurinn tilkynnir henni góðlátlega að það sé ekki nóg. Hún lætur hann hafa aðra lúkufylli og í kjölfarið þá þriðju. Þá er hún komin með um fimm hundruð krónur sýndist mér.
Afgreiðslumaðurinn spyr hvort hún sé með meira og hún segist hafa tvo peninga í viðbót. Hún réttir afgreiðslumanninum fyrst einn krónupening og síðan annan eftir að hún fékk að vita að sá fyrri myndi ekki nægja.
Afgreiðslumaðurinn segir henni að hún þurfi að sleppa einhverju og hún sleppir piparkökunum. Það dugar ekki til og hún ákveður að sleppa namminu líka. En þá allt í einu tilkynnir hún að hún hafi fundið meiri pening í veskin. Þúsundkrónuseðil.
Hún gat þá keypt allt sem hún vildi. Þá fékk hún eitthvað af klinkinu til baka en lendir í miklum vandræðum með það og missir ítrekað krónupeninga í gólfið. Síðan tekur hún svona þykkan og góðan Iceland plastpoka, sem kostar einhvern pening, og byrjar að raða vörunum í hann. Þá varð afgreiðslumaðurinn mjög einbeittur í því að taka ekki eftir að hún hefði tekið poka sem hún hefði í raun átt að borga fyrir.
Á meðan á þessu stóð lengdist röðin fyrir aftan mig. Við vorum þrjú fullorðin á eftir henni og fylgdumst vel með þessu. Ég fylgdist með fólkinu og allir voru brosandi enda var hún algjört krútt.