Ég held að það sé netöryggisdagur í dag og þess vegna verð ég að skrifa smá færslu þó fólk gæti mögulega farið að snúa út úr þessu hjá mér. Hin einfalda staðreynd er að ég á börn og ég vil ekki að þau endi á vafasömum slóðum þegar þau fara í tölvur heima hjá vinum sínum og af því ég er frekar tölvuvanur þá get ég hjálpað fólki. Það er líka augljóst að þessi ráð eru ákaflega gagnleg í öðrum aðstæðum
Þegar rætt er um börn sem finna óvart klám- eða ofbeldissíður á netinu þá finnst mér vanta að það sé rætt um hvernig það gerist. Ég held að börnin séu ekki óvart að skrifa “XXX” í leitarglugga. Ég held að börnin séu að finna síður sem foreldrarnir hafa opnað og vafrinn hefur vistað í minninu. Til að koma í veg fyrir að þetta gerist er rétt að foreldrar læri að fela slóð sína fyrir börnunum. Það eru margar leiðir til þess.
Í Firefox og Chrome er hægt að opna glugga í “private” og “incognito” stillingum. Þá leggur vafrinn ekki á minnið hvaða síður eru opnaðar. Sömuleiðis eru báðir vafrarnir með “history” stillingar þar sem maður getur eytt út úr minninu því sem maður hefur gert nýlega eða bara yfirhöfuð.
Það er líka gagnlegt að vita að hægt er að eyða sjálfsklárunarmöguleikum sem koma í felli listum, hvort sem er í leitar- eða vefslóðarglugganum, með því að setja músina yfir það sem maður vill eyða og ýta á Delete í Firefox og Shift+Delete í Chrome.
Ég hef annars ekki hundsvit á því hvernig maður gerir þetta í Internet Explorer.
Í leiðinni spyr ég hvort þú sért vanur netverji. Kíktu á prófið á Kviss.is.