Terry Pratchett og Douglas Adams fengu mig á sínum tíma til að fara að lesa aftur skáldsögur eftir nokkurt hlé.
Fyrir örfáum dögum var ég að ræða á Facebook um hvaða bækur eftir Terry Pratchett maður ætti að lesa. Nú er hann dáinn og mig langar að deila þessum hugsunum með ykkur. Ég læt fylgja með tengla á Amazon – beint á rafbókaútgáfuna fyrir utan eina sem vill ekki tengjast þannig.
Það versta sem maður gerir, ef maður ætlar að lesa Discworld, er að byrja á fyrstu bókinni (og því klúðraðist íslenska útgáfan). Í raun eru Discworld bækurnar með ýmis tímabil og undirseríur. Það er líka þannig að Pratchett er eiginlega ekki kominn með röddina almennilega í fyrstu bókunum.
Þess vegna skal byrja á Mort. Hún fjallar um Dauðann og dauðann og Mort.
Fyrir nornir, og Shakespeare, er best að byrja á Wyrd Sisters.
En ef þið viljið minna galdra og meiri löggu- og bófahúmor þá ættuð þið að kíkja á Guards! Guards! og auðvitað Men at Arms sem er næsta bók í þeirri undirseríu.
Mögulega er Small Gods uppáhalds Discworld bókin mín. Hún fjallar um skjaldbökur og trúarbrögð.
Af seinni bókunum verð ég að segja að The Truth sé í uppáhaldi hjá mér.
Af barnabókunum í Discworld er The Amazing Maurice and His Educated Rodents uppáhalds.
Af hinum barnabókunum eru Truckers, Diggers og Wings uppáhalds.
Pratchett kynnti mig fyrir Neil Gaiman og ef þið viljið fara þá leið þá er Good Omens góð og uppfull af Queen-tilvísunum.
Ég veit ekki hvort Nation teljist barnabók en allavega er hún ein allra besta sem Pratchett hefur skrifað.
Síðan er Dodger best fyrir Dickens aðdáendur.