Go Set a Watchman (smá spillar)

gosetÉg ætlaði satt best að segja ekki að lesa Go Set a Watchman en einhvern veginn stóðst ég ekki mátið. Ég las To Kill a Mockingbird í framhaldsskóla og var mjög hrifinn, eins og margir. Samkvæmt flestum er þessi bók fyrsta uppkastið að Mockingbird. Það er þó engin lýsing. Watchman gerist þegar Scout er orðin fullorðin og er í raun allt önnur saga þó nokkrar af sömu persónunum komi fyrir.

Það má segja að Mockingbird sé betri en þessi bjóði upp á flóknari, og raunverulegri, sýn á heiminn. Það má deila um hvort persónurnar í þessum bókum séu raunverulega þær sömu. En ég skil þetta þannig að Mockingbird sé sýn barnsins Scout á föður sinn en í Watchman sé Scout að sjá föður sinn sem raunverulega manneskju svipta hetjuljómanum. Þegar hún var ung sýndi hann henni sínar bestu hliðar en þegar hún snýr aftur heim þá er hún breytt og getur séð galla hans.

Eftir að hafa lesið Watchman þá get ég ekki skilið andúðina sem margir virðast hafa á henni. Einhverjir hafa sagt að hún hefði verið betur geymd í einhverju handritasafni í háskóla þar sem fræðimenn gætu skoðað hana. Ég hef varla heyrt betra dæmi um fílabeinsturnsdýrkun en það. Auðvitað eiga almennir lesendur jafnt og fræðimenn að eiga færi á að lesa bókina.

Ég veit ekki hvort nokkrum gæti þótt áhugavert að lesa Watchman án þess að hafa lesið Mockingbird fyrst. Það væri örugglega áhugavert próf. En það er án efa gott að lesa þessa bók til viðbótar við Mockingbird. Hún leggur áherslu á atriði sem sýna okkur að rasismi er flóknari en svo að það sé eitthvað ómenntað hvítt hyski sem aðhyllist slíkt. Það er til fólk, sem er að mörgu öðru leyti ákaflega gott, sem hefur mjög rasískar skoðanir. Reyndar hafa menningarfréttaritarar ekki spillt einu dæminu en það er kannski það mikilvægasta í sögunni.

Bókin kemur líka út á mögnuðum tíma í bandarískri sögu. Það er mikil undiralda gegn ofbeldi og kúgun á svörtu fólki í Bandaríkjunum. Stríðsfána Suðurríkjanna er loksins að víkja. En við höfum heyrt sömu afsakanir og heyrast í Watchman undanfarið. Þrælastríð snerist ekkert um þrælahald heldur „réttindi ríkja“ – þó Suðurríkjamenn hafi á sínum tíma einmitt sagt að þetta snerist um þrælahald.

En já, lesið bókina. Ég sogaðist inn ólíkt mörgum gagnrýnendum sem ég hef heyrt um.