Hérna er mynd úr Mogganum í dag. Þar er talað við mig um #Kommentakerfið. Ég valdi bolinn sérstaklega fyrir myndatökuna. Ég fékk hann sem “verðlaun” fyrir að styrkja myndina Wish I Was Here á Kickstarter.
Reyndar var sú söfnun umdeild á sínum tíma. Zach Braff, sem er frægastur fyrir að leika í Scrubs, safnaði þarna fyrir mynd sinni. Margir sögðu að hann væri of ríkur og frægur til að fara þessa leið. Svipuð gagnrýni kom fram þegar söngkonan Amanda Palmer var að safna á Kickstarter. Kommentakerfin og vefmiðlarnir voru ótrúlega grimm við þau.
Gagnrýnin varð til þess að Zach Braff lýsti því yfir að hann myndi aldrei fara þessa leið i fjármögnun aftur. Mér finnst það leiðinlegt. Mér fannst myndin sem hann gerði vera einmitt fyrir mig og aðra aðdáendur hans. Ef hann hefði fengið hefðbundna fjármögnun þá hefði myndin kannski ekki verið þannig.
Amanda Palmer skrifaði bók um reynslu sína af Kickstarter, með sjálfsævisögulegu ívafi, þar sem hún svarar meðal annars fólki sem sakaði hana um betl.Mér finnst Kickstarter æðislegt. Sem og Karolina Fund og flest hin lýðfjármögnunarapparöt. Ég hef bæði gefið peninga gegn því að fá einhver “verðlaun” og líka af því að ég vildi bara almennt styðja verkefni. Ég held að fræga fólkið sem notar þessa fjármögnunarleið séu ekki að gera neitt annað en að beina athyglinni að þessum valkosti.
Zach Braff og Amanda Palmer vildu bara finna leið til að gleðja fólk. Og þeim tókst það. Ég held að mér eigi eftir að takast það líka.